Wednesday, July 22, 2009

Smá snakk með vídeóinu

Mikið hafa dagarnir verið fínir undanfarið. Fyrir utan smá flensu í síðustu viku þá hefur áhugi minn á lífinu aukist. Kannski er það vegna stóraukinnar hreyfigetu (þols). Kannski vegna tóbaksleysis. Kannski bæði.

Adrenalín er nýja dópið mitt. Maður verður alltaf að hafa eitthvað dóp til að gleðja heilann sinn. Amfetamín og kókaín er víst ekki gott fyrir heilann þó að fólki líði oft stórvel af því, niðurtúrinn er svo annað mál. Gras er líka ágætt hef ég heyrt, en persónulega myndi ég ekki nenna að reykja það, ég yrði svo pirruð á letinni í sjálfri mér.

Ég held ég geti talið á fingrum annarar handar skiptin sem ég hef tekið smók af kanabiss-sígarettu, og einu sinni þáði ég kökusneið sem var víst alveg stútfull af einhverju gæðagrasi...Var mér sagt að fara rólega og að vera ekkert að klára hana. En þarna er ég í Bandaríkjunum og hafði náð að borða svo mikinn mat og vera svo oft svöng að ég kláraði bara víst sneiðina! Nema að þarna er húsfélagi minn með eitthvað grútleiðinlegt partí sem ég nennti ekkert að taka þátt í þannig að ég var bara uppi í herbergi að lesa (horfa á innantómt sjónvarpsefni). Svo líður og bíður og ég hugsa með mér, iss, gras er drasl...og pæli mikið í því hvað hljóti að hrjá grasreykingamenn og finnst þessir krakkar þarna niðri ægilega vitlausir að vera svona æstir í þetta rusl. Svo gerist það, ég er að leita mér að einhverri sæmilegri afþreyingu og svo hitti ég á þennan líka fyndna sjónvarpsþátt, sem hittir svo vel á hláturtaugarnar og kitlar þroskaða skopskyn mitt upp úr öllu valdi! Hvern datt í hug að semja þvílíka SNNNIIIILLD???

Ég lá þarna ein í hálfgerðri móðursýkisgleði yfir hnyttninni. Mér var svo létt eftir þessa hláturhviðu, og fannst ég sjálf einmitt líka svo létt. Mikið var orðið gaman. Samt var þessi kaka sem ég át ekkert að virka? Jæja, eftir nokkur hlátursköst til viðbótar varð ég svöng. Enda er ekkert betra en að eiga snakk með góðri bíómynd. Ég fór niður í eldhús, opnaði ísskápinn og tók ALLT úr honum. Svo mikill var valkvíðinn. Frystinn kíkti ég líka í þó ég ætti ekkert í honum. Ég fékk lánaðan hálfan líter af súkkulaðiís og fór upp.

Mig minnir að ég hafi klárað afmælisköku og ísinn ásamt einhverjum brauðsneiðum með majonesi og skinku....(man ekkert hvað var á þeim.) Ég veit bara að ég fór langleiðina með að klára allt sem ég dröslaði með mér upp. Svo svöng var ég.

Mikið var gaman!

Þó var eitt sem ég tók ekki með í dæmið í byrjun. ÁÐUR en ég gæddi mér á saklausu kökunni sem hafði ENGIN áhrif...What goes up must come down. Kannski má þýða þetta: Það sem skýst upp, skellur niður.

Því mórallinn yfir því að éta allt innihald ameríska ískápssins milli þess að raunverulega skemmta sér yfir EVERYBODY LOVES RAYMOND er...mikill.

1 comment:

Followers