Monday, August 31, 2009

Flutningar

Það er hægt að segja að ég hafi flutt oft.

Það er líka hægt að segja að ég hafi oft flutt á milli landa.

3ja ára kom ég til Indiana í Bandaríkjunum með fjölskyldunni, snérum heim þegar ég var 7.

Á 13 ári (tíu árum síðar) fluttum við í rétt rúmt ár til Tacoma í Washington fylki. Heim aftur 14 ára.

Hérna vesenast ég í Hagaskóla, MR, FB, Iðnskólanum - og svo fór ég bara að vinna, vesenast og skemmta mér.

22ja ca. flyt ég til Kaupmannahafnar og bý þar í 2 ár.

Kom heim, vann og dreif mig svo aftur í skólann. Kláraði hönnunarnámið 26 ára.

27 skráði ég mig í háskólanám og flutti til Minnesota, í friðsælan háskóla/veiðimannabæ sem kallast Bemidji- Á indíánamáli þýðir þetta: "Þar sem áin rennur í gegn". Enda er þetta fyrsta áin við Mississippi ánna. Nóg um þetta, enda ekki mikið meira um þennan bæ að segja, annað en að SEM BETUR FER var hægt að skreppa til Mpls/st.Paul öðru hvoru.

Í maí '08 er útskrift og varð ég bachelor í Myndlist. Tók samt helling í iðnhönnun (10 einingar í að fá Bsc gráðu), en hef ekki áhuga á því. (En sorglegt, ég sem ætlaði að vera frk. Praktísk).

Ég kom heim í júní eða júlí, man ekki hvort eins og er. Hef verið hérna í rúmt ár.

Venjulega líður lengra á milli flutninga hjá mér en nú, því ég er að fara úr landi aftur.
Aftur til Kaupmannahafnar.

Undanfarið hef ég verið spurð að því hvers vegna ég vil flytja. Ég veit ég ber kreppuna fyrir mér og svona eitthvað...En þegar ég hugsa um hana. Raunverulegu ástæðu þess að ég vil flytja...þá er svarið einfalt.

-Af því mig langar til þess.

Saturday, August 22, 2009

Draumfarir og orðin þrjú.

Ég vaknaði með tilfinningu sem er ekki svo góð. Ég vaknaði með þrjú orð á heilanum. Meira svona eins og þau væru að stríða mér. Svona eins og stórar, feitar og háværar húsflugur sem sveima í nágrenni við mann, en svo þegar maður er búin að slaka á koma þær svo nálægt að það er eins og þær ætli inn í heilan á manni í gegnum eyrað....Ah...allavega ég þoli þær ekki.
Ég sem er í fréttapásu. Kemst ekki alveg hjá því að heyra fólk jarma, eða að kíkja á fyrirsagnir. Reyndar er vonlaust að vera á kvöldvakt því þá eru fréttirnar yfirleitt áhugaverðari en sjálf vaktin...

Icesave, ESB og greiðslubyrði.

Icesave.
ESB
Greiðslubyrði

-Út frá þessum orðum spunnust svo hinar ýmsu leiðindahugsanir. Þó stóð uppúr sú hugsun að ég hlyti að vera orðin klikkuð þar sem ég NENNI EKKI AÐ HUGSA UM ÞETTA LENGUR. Að vakna í einhverri þráhyggju um ástand landsins þar sem ég bý. Og að reyna að reikna út bestu og hraðskreiðustu leiðina fyrir mig persónulega til að borga bankanum mína skuld. Kommonn klukkan er átta á laugardegi. Chill.

Ég sem sé fyrir mér fullkomin heim, eða líf þar sem kærleikur, gleði og frelsi eru einkunnarorð allra. Ef ekki allra, þá allavega minna! Þessi 3 orð (Icesave,ESB og Greiðslubyrði) eru bönnuð hér með. Ég vona að ég vakni klukkan tíu í fyrramálið, og fái að dreyma litfögur fiðrildi í ævintýralegri náttúru og finni fyrir kærleik, gleði og frelsi.

Hitt sér um sig sjálft.

Jesús. Þvílík byrjun á morgni. Og það á fríhelgi!

Thursday, August 20, 2009

Kirkjugarðsvakt.




Nú. Ég vonast til að þetta blogg verði stórkostlegt. Því kröfur mínar á sjálfa mig og lífið eru, að ekkert sé þess virði að gera það nema að það sé stórkostlegt og leiði af sér stórkostlegar hluti. Ég vil bara hitta stórkostlegt fólk og borða stórkostlegan mat. Því líf mitt er stórkostlegt!!

En í kvöld er það næturvakt. Á meðan bíða stórkostlegheitin betri tíma. Enda er þetta of langt lýsingarorð til að vera að tyggja á því hér.

Ég svaf ekkert í dag fyrir þess vakt og sé fram á steikta tilveru um fjögurleitið í nótt. C'est la vie...

Það styttist í sýninguna mína á Laugavegi 170 og svo er ég að huga að flutningum.  Mikið hlakka ég til. Ég hef verið hérna í rúmt ár og finnst vera komið gott. Nenni ekki að vera hér lengur. It's been fun, but I gotta go. Sumt þarf maður ekki að sætta sig við. Ég þarf samt að redda mér góðum ferðatöskum, það eru nefnilega nokkrar manneskjur sem ég þarf að taka með mér héðan...

Wednesday, August 19, 2009

Íha!

Eftir allar heimspekilegu hugsanirnar sem ég hef hugsað þessa síðustu 8 daga, hef ég nákvæmlega ekkert merkilegt að blogga um. Sem er kannski markmiðið með þessu öllu hvort sem er. -Ekki að hafa ekkert merkilegt að blogga um, heldur að hafa ekkert merkilegt að hugsa um. Merkilegar hugsanir teljast til íþyngjandi, mótsagnakenndum og bölsýnum endurtekningum sem ramba um heilann og öskra af og til einhverskonar "svari" við tilvistarkreppunni sem þetta líf er. En það er ekki svo einfalt því það er stríð þarna uppi. Og mér virðist það ekki snúast um neitt og ég veit ekki alveg hver er að vinna það. Ég veit bara að stundum er mikið varið í þetta ferli vegna þess að það kemur oft eitthvað skemmtilegt út úr því.

Stundum er maður bara svo sniðugur ;)

Thursday, August 13, 2009

kreppakreppakreppa?

Mikið væri gaman ef maður væri bara að misskilja þetta allt saman. Því miður er ég búin að vera vitni að mannvonsku oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Orðið mannvonska er eitt af þeim orðum sem ég hef ekkert notað held ég, ever. Hef einhvern vegin ekki trúað því uppá fólk að vera það glatað, né heldur hef ég endilega verið að leita uppi galla þeirra sem ég umgengst. Ég fatta yfirleitt ekki hvað fólk getur verið rotið fyrr en eftir að búið er að segja eitthvað áberandi glatað við mig. Helst oft. Verra finnst mér
þó að vera vitni að kúgun gegn öðrum. Í dag var ég það. Vitni að því hvernig nett yfirvald (authority) nýtir sér sína aðstöðu og pissar yfir tilverurétt annara. Bara vegna þess að manneskjan var í stöðu til að sýna "yfirburði" sína.
Þetta sé ég oftar og oftar eftir að KREPPAN skall á. Málið er. Ég redda mér. Þó að bankanum sé sama og að ég þurfi að vinna allan sólarhringin (eins og aðrir sem hafa vinnu) þá hef ég leyft mér að pípa af og til í "sjálfsvorkun" yfir stöðu minni og kyngt því bara og haldið áfram.
Því að þó að ég eigi ekki fyrir mat þá hef ég það bara nokkuð gott miðað við marga hérna. Og er ég ekki að vera kaldhæðin.

Ég sá í dag dæmi um hvernig fólk er að nýta sér ástandið til að hefja sig upp á öðrum. Djöfull er ég þreytt á þessu og þreytt á því að þurfa að þegja yfir vonbrigðum mínum. Það er engin lausn í því að láta eins og allt sé í kei...

Annars er ég bara hress. (mér finnst eins og ég hafi skrifað þetta nákvæmlega sama blogg áður)

Saturday, August 8, 2009

Aðfaranótt sunnudags

Þegar ég var úti kynntist ég mikið af allskonar fólki. Mér fannst líka áhugavert að koma inn í trailer sem ein bekkjarsystir mín átti. En það er ekkert tiltökumál að vera nemi og búa alls konar. Fyrst þegar ég sá hvernig hún bjó þustu fordómar í gegnum mig alla eins og það væri hreinlega eina uppistaðan í mér. Mildin og auðmýktin hvarf og ég fann hvað ég varð ringluð. -En bara í augnablik. Síðan varð mér slétt sama um hvernig fólk bjó, því ekki þótti mér fínna liðið sem bjó ennþá inná foreldrum sínum eða á vistinni, eða liðið sem leigði og bjó með fullt af fólki - eins og ég.

Málið er að ég mætti mínum eigin fordómum þarna. Ég kynntist svona rich-kids sem báru ekki virðingu fyrir neinum, og ég komst að því með tímanum að ég yrði hreinlega að kynnast fólki betur en bara yfirborðslega ef ég ætlaði að geta áttað mig á því. Eignir, eða eignarleysi segir mér allt of lítið um fólk (ekki neitt)...nema kannski að það eigi, eða hafi átt pening, eða sé fátækt. En persónur eru svo miklu meira en það, og gæfa fólks getur breyst á svipstundu til hins betra eða verra. Þessvegna REYNI ég að dæma ekki fólk og trúa því að það sé kannski ekki eins og ég held í fyrstu. Það er alltaf gaman að láta koma sér á óvart.

Málið er að í kvöld(nótt), sem ég sit hérna með enn eina fokking flensuna kl. 2:20 að nóttu til, bíð ég eftir að nágrannarnir hérna í fína hverfinu slökkvi á fokking græjunum sínum, haldi kjafti og kannski átti sig á því AF SJÁLFSDÁÐUM að það er inni í MIÐJU íbúðahverfi. En þetta fólk, í fína húsinu, í fínu fötunum er einmitt gott dæmi um skítapakk sem á sér líklega ekki viðreisnar von. Meira að segja trailer park er of gott fyrir svona lið. Þar yrði það hvort eð er barið í spað fyrir svona læti að nóttu.

Djöfulsins kjaftæðisrumpulýðspakk. Ahh...meira orðbragðið..

Tuesday, August 4, 2009

Haust og hugmyndir.

Loksins er haustið komið. Nú er hægt að fara í göngutúra í eðlilegri birtu og jafnvel smá rigningu. Ég fékk meira að segja hugmyndir í fleirtölu í dag. 

Fyrsta sýningin mín síðan ég kom heim verður haldin í byrjun september, og ég er komin með annan fótinn inn í gallerí.

Ég er með 3 striga fyrir framan mig núna sem eru að þorna. 

Í kvöld komst ég upp úr einhverjum hugmynda-og framkvæmdaleysis fíling og ég er sannfærð um að það sé haustið. Myrkrið og kyrrðin í sólarleysinu vekur huga minn upp úr eirðarleysinu sem íslenska sólin færir mér. Þetta með að píra augun í tíma og ótíma er bara þreytandi, enda er síðdegislúrinn minn hálfgerð rútína orðin. Nú get ég hætt að velta mér uppúr því hvort ég sé félagsskítur að nenna ekki að hanga í sólinni allan liðlangan daginn, og fagna enn og aftur HAUSTINU. Tíma sköpunnar.

Að léttara og yfirborðslegra hégómahjali:

Gaman að segja frá því samt að ég er svakalega vel tönuð vegna sundferða minna. Enn skemmtilegra er að nefna að ég hef aukið vegalengdina þar um 1,5 km. Sem gerir 2.5 km. Kannski er þetta bara merkilegt í ljósi þess að fyrir ári síðan gafst ég upp eftir 2 ferðir.
En nú fæ ég mér sólarvörn, sundgleraugu og carbamid krem. Klórinn er alveg að rugla í húðinni og augunum á mér. Ég hef þó haft vit á því að bera Kerastase lagaónýtthár-hárnæringu á hreiðrið sem ég kýs að kalla hár...

En jæja. Fjörið er búið, klukkan er orðin aaaallt of margt og ég er farin að sofa.

-Þar til næst.



Monday, August 3, 2009

Út í sveit

Mikið væri ég til í að búa úti í sveit þar sem ég gæti bara málað og lifað. Mig langar minna og minna að vera hérna í Reykjavík, og ég held að þetta ár sé ágætis reynslutími.
Ég er alltaf meira og meira ósammála meirihlutanum. Það í sjálfu sér skiptir sosum engu máli enda nenni ég ekki að vera í einhverri gelgjulegri uppreisn, heldur er komin tími á að fara að koma sér fyrir þar sem mér (mjög mikilvægt) ->líður vel. En þetta sættasigvið-ástand er ekki að gera sig. Ekki að mig vanti svo mikið af betri hlutum og drasli, heldur vantar mig einmitt meiri tíma. Mér kemur ekki við hvaða lífsstíll er í tísku, eða þykir ákjósanlegur. Sérstaklega þegar ég eyði hvort sem er meirihlutanum af mínum tíma í vinnunni og lifi frekar mínimalísku lífi.  

Ég veit að hlutir og aðstæður breytast og að lífið er viðkvæmt fyrirbæri. Það má kalla það flótta. Flýja aðstæður. -Eins og það sé einhver dyggð að sýna hollustu við vitleysuna hérna? Finna til sín í einhverri biturri réttlætiskennd? Sýna samborgurum samstöðu? Rosa samstaða í gangi hérna líka...

Upphaflega ætlaði ég að flytja Vestur á firði. Ég fékk nú gagnrýni út á það. Fólki fannst alveg sitt um þann "flótta". 

Ári síðar langar mig ennþá, ég er sveigjanlegri með staðsetningu sveitarinnar þó. Mikið er ég fegin að vera búin að missa heyrnina.

Ægileg blogggleði er þetta.

Sunday, August 2, 2009

What a difference a day makes

Fyrir þá sem ekki fara mikið út að skemmta sér, þá mæli ég eindregið með því að fara á tónleika innan um fullt af fólki sem þig langar ekkert að hitta. Ég er frekar neikvæð þegar kemur að því að fara á djammið og fer því sjaldan, kannski vegna þess að mér finnst fullt ókunnugt fólk ekkert sérlega skemmtilegt. Hvað þá að eyða þeim litla frítíma sem ég hef í að nuddast utan í því. Ég álpa alltaf út úr mér afsökunarbeiðnum þegar ég rekst í fólk og verð því miður oft svo pirruð á því að aðrir gera það ekki.

EN!

Í kvöld samþykkti ég að kíkja út með Evu vinkonu. Við fórum á tónleika með Ljótu Hálfvitunum á Rósenberg. Það var ágætt. Þeir voru voða fyndnir og krúttlegir og spiluðu eiginlega bara skemmtilega tónlist. Hæfileikamenn þar á ferð. Líklega vanmetnir og væntanlega með framtíðina fyrir sér í sveitaballapakkanum(eins og það sé einhver annar pakki sem hægt er að "græða" á...nema að komast út.) Nú kannski eru þeir búnir að vera að rosa lengi og kemur þá í ljós hversu illa ég fylgist með. 
Við röltum á Boston og sátum úti á pallinum þar sem ég hitti gamla vini, ægilega gaman. Svo ómaði villt rokk frá Dillon. Fín stemning.

Ég var komin heim fyrir miðnætti samt sem áður.

Mikið var samt gott að komast í návígi við fíflaskap og tónlist. Ég held ég fari aðeins meira út (fer líklega eftir 2 mánuði ef ég legg mig fram). 


Á kafi

Ég er ein af þeim heppnu sem er með vinnu, og nú um mánaðarmótin fékk ég heilar 5 þúsund krónur frá skattinum (kom sér vel þar sem mig langaði að kaupa í matinn), og svo kom inn á reikninginn minn LAUN.  Nú. Þegar ég var búin að borga alla reikninga lagðist ég í rúmið og kom mér vel fyrir í fósturstellingunni. Svo þegar ég var orðin þreytt á að vorkenna sjálfri mér fyrir að eiga ekki bót fyrir boruna á mér ímynda ég mér ég búi í samfélagi með fólki sem hendir glæpamönnum í fangelsi og lætur mig ekki líða fyrir þeirra heimsku. Ég ímynda mér að ég greiði reikningana mína með réttu og fari svo í búðina, kaupi mat fyrir vikuna og skelli mér út að borða og í bíó. Svona eins og venjulegt fólk gerir. 
Að ég geti hlakkað til að kaupa mér flugmiða til bróðir míns og litla frænda í Danmörku eins og ég hafði planað. -svona síðbúin útskriftarferð. En nú er meira en ár síðan ég kom heim og ég er hægt og rólega að gera mér grein fyrir því að kannski, mögulega er ekkert að fara að lagast. Því á eyjunni þar sem allir segja allt fínt, er allt að fara til helvítis.

Ég hef ákveðið að leysa þetta með því að auka sundferðir mínar og vera sem lengst í kafi.

Followers