Thursday, April 30, 2009

Upp úr kafinu.

Undanfarið hef ég verið eitthvað andlaus. Og til að bæta ofan á það- óánægð með andleysið.

Andleysi kemur samt ekkert bara af tilefnislausu. Í mínu tilfelli tengist það oftar en ekki -áhyggjum. Þrátt fyrir að ég hafi þokkalega reynslu af því að koma mér í þannig aðstæður sem segja mér að "nú sé öllu lokið", þá hefur mér tekist að leysa vandamálin þó að þau líti út fyrir að vera óyfirstíganleg.

Enn og aftur sýnist mér þetta allt vera yfirstíganlegt, en það er bara vegna þess að ég neita að gefast upp. Hvort sem það eru aðstæður sem ég þarf að forða mér úr þó að ég haldi að ég lyppist niður og deyji ef ég geri það -Þá hef ég fyrir einhverja mildi náð að treysta því að ef ég er vongóð og með einhverja týru um að allt blessist, náð að komast á betri stað í sjálfri mér (eða lífinu).

Bjartsýni fyrir mér er ekki að ganga um með heimskuglott á smettinu og vera bara hress, heldur er þetta spurning um að halda áfram. Bjartsýni er ekki stilling í huganum.

Stundum er nóg fyrir mig að muna að fara í samstæða skó áður en ég geng í vinnuna, sem ég man ekki alltaf hvers vegna ég er að hafa fyrir að mæta í. Því oft eftir skylduþrungin tímabil er ég minnt á það að með staðfestu og einhverskonar trú, þá sé tilveran hreint ekki slæm.

Enn og aftur sýp ég hveljur.

Tuesday, April 21, 2009

Jæja krakkar þá er ég farin að geta gengið í gallabuxunum mínum aftur. Þegar ég var að monta mig við vinkonu mína spurði hún mig hvað ég væri að gera til að grennast og ég gat einhvernvegin ekki sagt neitt annað en að ég passaði aðeins hvað ég léti ofan í mig og hreyfði mig aðeins meira. Ekkert brjálað. Bara eðlilega. Sund og ganga. Auðvitað fæ ég mér líka próteindrykki til að "borða" eitthvað annað en brauð og ógeð á daginn og svo fæ ég mér bara kvöldmat eins og annað fólk. Ég narta á milli mála áhyggjulaust, en ég held að þessi litla hreyfing sem ég hef bætt við mig geri gæfumuninn. Svo er ég líka ástfangin og er þar af leiðandi jákvæðari...eða eitthvað.

Ég get ekki lýst því hversu glöð ég var þegar ég hætti að þrjóskast við að vikta mig, og sá að eftir viku af léttu sundi hafði ég losað mig við heilt kíló. Nú auðvitað tel ég bara vikurnar og krefst þess að missa eitt kíló á viku (eða tveim).
Ég hef samtals misst svona 12-14 kg síðan ég kom heim. I was big. Believe me...

Fyrir þá sem ekki vita þá bjó ég í Ameríku og varð feitabolla. Hnuss.

Thursday, April 16, 2009

Tuesday, April 14, 2009

O jæja

Þetta er að þynnast allhrapalega hjá mér.

Eftir að ég fór að aðhafast meira, minnkar þörfin á því að rausa hér á blogspot. Ég veit líka hvað það getur verið grautleiðinlegt að lesa dagbókarfærslur á bloggum þannig að ég er meðvituð um það á meðan ég reyni að skrifa eitthvað.

Málið er nefnilega þetta; Ég veit ég hef stundum skrifað um hvað ég er að aðhafast, og vegna þess að ég er að reyna að lifa uppbyggilegu og "gefandi" lífi þá er ekkkkkkert gaman að lesa um það.

Sjálfri finnst mér skemmtilegast að lesa blogg sem hafa "innihald", eins og til dæmis vel skrifaðir pistlar um pólitík (þó ég gæti reyndar ælt þegar ég heyri minnst á hana í dag), eða bara helst raunasögur og kjaftagang.

En þar sem ég er í raun að reyna að halda einbeitingu í máleríinu mínu auk þess að vinna fyrir salti í grautinn, hreyfa mig (jújú...mikið rétt) -synda og gangiskokka og EIGA LÍF - þá bara hef ég ekkert hnyttið að segja hér.

Reyndar...Í vinnunni í dag varð ég ótrúlega sorgmædd yfir atvinnuþrengingunum (atvinnuleysi, kreppa...osfr.) að mér varð á að röfla eitthvað um það hvað ég gæti verið að vinna eitthvað annað sem ætti betur við mig eða hitti meira í mark eða eitthvað...námið mitt myndi nýtast betur í einhverju öðru við manneskju "ofar" mér. Í allan dag hef ég vonað að þessu hafi ekki verið tekið eins og ég sé óánægð. Það ekkert nema eðlilegt að fá leiða, eða verða sorry yfir því að geta ekki valið úr vinnum (sem ég bjóst við), eða að vera nýskriðin úr námi og finnast eins og það breyti engu nema skuldastöðunni að hafa lært eitthvað.

Heldur kom í mig kreppuhræðsla.

...Er þetta afleiðing hrunsins? Er það svona sem "þakklæti" brýst út? Í hræðslu og undirgefni?

Friday, April 10, 2009

Allt of snemmt

Klukkan er rétt korter yfir sjö og ég er búin að vera á fótum síðan 6:30 að morgni á föstudeginum langa.

Ég veit ekki stöðu annarra, en ég stunda 100% vaktavinnu ásamt því að þýða hina ýmsu þætti og myndir, sem fara beint á DVD eða í sjónvarpið. Þetta geri ég á frídögunum mínum. Svo mála ég líka málverk. Því hef ég sinnt frekar vel þangað til núna fyrir nokkrum dögum. Ég held að vinnan, sem göfgar manninn svo mikið, hafi tekist að murrka úr mér sköpunargleðina.

Eins gott að þetta sé tímabundið ástand.

Tuesday, April 7, 2009

Fullkomnun

Ég farin að stunda sund. Það gerði ég mikið af hér í gamla daga og þótti gott að synda og var ansi aþlettik í mér. Var í körfu, handbolta, fótbolta með félögunum og auðvitað í Jazz-Ballet og svo auðvitað einhverja æfingamaníu in ðe nineties.

Ég hef það(aþlettisismann) ennþá, í mér, en nú þarf ég að útfæra það betur líkamlega því ég er ekkert að synda þúsund metrana neitt strax. fyrir nokkrum dögum synti ég x mikið og í dag synti ég x sinnum 2.5. Sem veit á gott framhald.

Nú sit ég í fríi heima hjá mér að vinna í hinni vinnunni minni, með heimamalaða kaffið mitt og eiturlyf með filter. (!?)

Í fyrramálið hef ég mælt mér mót með góðri vinkonu minni til að fara í göngutúr og sund.

(Á eftir mun ég svo mála nokkur meistaraverk og verða ótrúlega gagnrýnin á samfélag mitt og fletta ofan af allri vitleysunni sem ég læt viðgangast sjálfviljug og reyni að finna útúr því hvers vegna í ósköpunum ég sé svona misskilin. Kemst svo að því að það sé vegna þess að ég sé heimspekilega þenkjandi listamaður sem þurfi að sætta sig við hlutskipti sitt í þessum heimi...eða ekki og gera bara allt vitlaust. Hú nós?)

Followers