Thursday, April 30, 2009

Upp úr kafinu.

Undanfarið hef ég verið eitthvað andlaus. Og til að bæta ofan á það- óánægð með andleysið.

Andleysi kemur samt ekkert bara af tilefnislausu. Í mínu tilfelli tengist það oftar en ekki -áhyggjum. Þrátt fyrir að ég hafi þokkalega reynslu af því að koma mér í þannig aðstæður sem segja mér að "nú sé öllu lokið", þá hefur mér tekist að leysa vandamálin þó að þau líti út fyrir að vera óyfirstíganleg.

Enn og aftur sýnist mér þetta allt vera yfirstíganlegt, en það er bara vegna þess að ég neita að gefast upp. Hvort sem það eru aðstæður sem ég þarf að forða mér úr þó að ég haldi að ég lyppist niður og deyji ef ég geri það -Þá hef ég fyrir einhverja mildi náð að treysta því að ef ég er vongóð og með einhverja týru um að allt blessist, náð að komast á betri stað í sjálfri mér (eða lífinu).

Bjartsýni fyrir mér er ekki að ganga um með heimskuglott á smettinu og vera bara hress, heldur er þetta spurning um að halda áfram. Bjartsýni er ekki stilling í huganum.

Stundum er nóg fyrir mig að muna að fara í samstæða skó áður en ég geng í vinnuna, sem ég man ekki alltaf hvers vegna ég er að hafa fyrir að mæta í. Því oft eftir skylduþrungin tímabil er ég minnt á það að með staðfestu og einhverskonar trú, þá sé tilveran hreint ekki slæm.

Enn og aftur sýp ég hveljur.

1 comment:

  1. Gangi þér vel og haltu áfram! Þú verður í bænum mínum í kvöld.

    ReplyDelete

Followers