Tuesday, June 30, 2009

Allt fyrir peninga

Nú þar sem ég er komin í heila 8 daga í sumarfrí get ég loksins unnið almennilega. Ég hef nefnilega komist að því að líf sem átti að snúast um listina, er farið að snúast um peninga.

Mammon þykist samt bara hafa sigrað. Hann hefur litið inn áður nefnilega.

Fyrir ári gaf ég afganginn af hlutunum mínum, stóra kassa með fötum, stóla, nýtt rúm heilan helling af skóm og svo flest allt eldhúshæft. Hluti sem ég þoldi ekki hvort sem er og svo hluti sem ég elskaði og hafði fengið í gjafir frá fólki sem skiptir mig máli.

Ég hélt að ég myndi verða voðalega frjáls og andleg, en umfram allt með minni byrði-fortíð-pakka. Pakki. Ég nefnilega fór í "allan pakkann", mann, hús, bíl(a), peninga, stöff. Þegar hætti að hrikta í stoðunum á sambúðinni og þær hrundu og sukku í sandinn fannst mér ég ekki geta yfirgefið manninn því að þá myndi ég "missa allt". Húsið, bíllinn og draslið. Innbú og húsgögn. Það sem gerir mann fullorðinn. DRASL. Síðan þá eru nokkur ár.

Það hefur tekið tíma að aðlagast aftur, greinilega (annars væri ég ekki að tjá mig um þetta) og er ég breytt manneskja. Því hlutir sem fólk gerir getur breytt því. Eða-ef heilinn er fær um að beygja sig. -Hlutir sem gerast í lífi fólks getur fullmótað það. Því er ekki um neina breytingu að ræða. Kjaftæðið er bara farið.

Ég á nýbakað brauð, heila heilsu og fullt af hugmyndum sem eru í ferli.

Á Íslandi.
Drasl-laus. Vaknaði í morgun með sumarbuxur sem ég gaf á heilanum. Aldrei fæ ég Explorerinn á heilann. Enda væri það fáránlegt.

Wednesday, June 24, 2009

Blogg úr rassinum á mér.

Ég fór í sund í dag (eins og aðra daga) og fannst allt í einu að ég hefði eytt of miklum (dýrmætum vinnutíma) í það. Ég synti þúsund metrana og labbaði heim og svo núna finnst mér eins og ég hafi snuðað sjálfa mig. Líklega er þetta helber vitleysa, því heilsan er ekkert minna mikilvæg en vinna. En ég ákvað að ég skyldi bara fara í sund í fyrramálið klukkan 6:30. Fyrst ég gat vaknað svo snemma í VETUR þegar ég REYKTI til að eiga kósístund með sjálfri mér og Möllu vinkonu, get ég alveg rölt mér í laugina! Markmiðið er að synda núna 1500 metra í smá tíma og svo 2000.

En ég fór á heimasíðu sundlaugarinnar og sá hvar hægt er að skilja eftir athugasemdir. Einn kvartaði yfir því að ekki væru nægar upplýsingar á vefnum. T.d. lengd laugar, fjölda brauta og svona eitthvað. Vissulega vantaði þessar upplýsingar. Ég eiginlega skil ekki hvers vegna ég hef skoðun á þessu, en sko. Í GAMLA DAGA HRINGDI MAÐUR BARA! - Úr heimasíma.

Mikið er ég þreytt á internetinu.

Wednesday, June 17, 2009

Jésús!


Ég held ég hafi sprengt geðveikisskalann minn í dag.

Í gær var ég ósköp róleg og hálf þreytt eftir 2 næturvaktir, vaknaði eftir 8 klst svefn og las megnið af deginum og langaði í pizzu frá Napolí. Aðalsöguhetja bókarinnar er á Ítalíu að læra ítölsku og borða ítalskan mat í tíma og ótíma. Ég, hins vegar, hef verið að huga að mataræði mínu og er uppistaðan grænmeti...Þannig að það var gaman að finna bragðið af öllum matnum sem hún var að lýsa. Svo er hún líka að koma útúr skilnaði og einhverju ástarsambandi sem rífur eitthvað í taugar hennar.

Í gær var ég líka búin að ákveða að vera ekkert að stressa mig á þjóðhátíðardeginum, sama gilti um kærasta minn og mér fannst það fínt. Ekkert stress... Ætla ekki í bæinn. Bara vera róleg. Ætlaði bara heim til mín að hlaða símann, þvo þvott og mála.

Síðustu 10+ ár hef ég farið (ef ég er á landinu) í bæinn, hitt hinn og þennann, farið heim og dáið úr þreytu ásamt pirringi yfir því hvað ég er að þvælast þetta mér finnist þetta hvort sem er alltaf jafn þreytandi. Ég á ekki börn til að skemmta og úða sælgæti í, og mér finnst miklu skemmtilegra að hitta fólk í rólegri aðstæðum.

Í DAG er annað upp á teningnum. Ég er eirðarlaus sem aldrei fyrr. Finnst ég VERÐA að hitta hinn og þennann og er að pirra mig á því að ástmaður minn ætli bara að slaka á í dag! Skilur hann ekki að honum ber að skemmta mér!? ÞAÐ ER SAUTJÁNDI JÚNÍ! (?).
Ég tékkaði á honum aftur áðan, eða keyrði til hans og hann var enn bara að njóta lestursins. Ég hringsnérist aftur út í leit að einhverju. Jæja. Ég veit að það er sagt að geðveikir viti ekki að þeir séu geðveikir...en hvað ef maður ER geðveikur og veit það? Er maður þá minna geðveikur eða meira geðveikur en hinir geðveiku? Allavega. Svona er það líklega að vera geðveikur.

Ég er allavega hætt að elta skottið á sjálfri mér og horfi á strigann minn tilbúin til að komast í hliðstæða heiminn minn.

Góðar stundir.

Wednesday, June 10, 2009

Hnífurinn


Er búin að vera að taka til (umturna) íbúðinni minni og sýnist ég þurfa að vera frumlegri í uppröðun og breyta týpískri pælingu með eldhús og stofu..En ég fékk sófa um daginn, 3ja og 2ja sæta vínrauða Lynch-sófa með kögri. Þar með var plássið mitt farið. En ég nota stofuna sem vinnustofu, eða gerði fyrir tilkomu plush sófanna. Nú hef ég hent öllu til og frá og búið til vinnuaðstöðu á ný. Nú get ég haldið áfram á meiri krafti að mála og kannski notað eitthvað af þessum skissum sem hafa komið í staðinn.

Enníhú...Ég held að "eldhúsið" verði áhugavert.

ÞAÐ sem ég vildi þó sagt hafa, er að á meðan á þessu brölti stendur hef ég haft The Knife - Deep Cuts á fóninum. Djös stemning.

Hvorki fugl né fiskur festist á milli skips og bryggju.


Ég fór á Austurvöll til að njósna áður en ég skellti mér á kvöldvakt.
Ætli maður sé bara áhorfandi? Hvað á maður að gera? Það er búið að gera hitt og þetta og ég eiginlega nenni ekki að halda áfram að valda sjálfri mér hugarangri með þessu. Ég hef ekkert að segja um þetta. Ég rómantisera þetta stundum með því að hugsa til framtíðarinnar þegar ég er orðin eldgömul og get státað mig af því að hafa nú lifað tímana tvenna þegar 2009 fór í viftuna...Ekkert meira en það.

rosa mótmæli í gær...ha...

En ég ákvað í gær að í raun væri ekkert annað að gera en að vera jákvæð. Ég hef neikvætt mig í hel undanfarið og er að sligast undan því. Nóg er um bull í kringum mann til að maður fari ekki að vera bull sjálfur.

En ég nefnilega fann óvart til þakklætis í gær þegar ég rölti mér í vinnuna. Ég nefnilega er með vinnu og er bara ekkert of góð fyrir hana. Það er einhver landlægur hroki gagnvart því að vera ekki að "meikaða" og er ég 100% sek um hann sjálf. Og það merkilega er að þessi hroki hefur ekkert með raunveruleikann að gera. Hann er bara í hausnum á manni. Og er frekar súrrealískur. Garalovitt mar.

En hér fyrir ofan er skissa af Alþingishúsinu sem ég teiknaði í góðu yfirlæti á Austurvellinum...Hún er á hlið?

Sunday, June 7, 2009

Uppfært líf.

Ég blogga til að lifa. Einmitt.

Mikið er furðulegt að taka ekki eftir stafsetningavillum (stafsetningaRvillum?)...nenni ekki að fletta þessu upp...(frh:) fyrr en nærri viku eftir að maður hendir einhverju röfli á alnetið.

En ég er ss. orðin reyklaus. Dagur 11 (fyrir utan eina sígarettu)...Mér datt í hug að reykja sígarettu vegna þess að mér leið ekki nógu vel, en fann fljótt að hún var ekkert nema bragðvond og íþyngjandi. Nema hvað...Í kjölfarið á reykleysinu hef ég tekið upp á því að hreyfa mig meira því ég held að það sé hægt að springa úr sjálfum sér ef maður gerir ekkert fyrir líkamagreyið. Þannig að í dag tókst mér að skokka 4 km þó að bakið sé í einhverri steik. En líkamsræktin mín er sund. 1000 metrar nokkrum sinnum í viku. Það er þægilegt að hafa orku og geta andað almennilega. Og fyrir utan allt þá er örugglega rosa fjör að vera hot. Ég man þá gömlu daga þegar Solla vóg ekki þúsund kíló.

En þar sem ég hef einsett mér að líta á björtu hliðarnar og slaka á röflinu mun þetta blogg verða með þeim dagbókarlegri... En ekkert leiðinlegt sko, markaðshópurinn mun bara breytast. Kannski lesa fleiri eróbikkhoppandi reykleysingar þetta. Kannski engin.

Hey, hvað með Ice-Save?

Ísland. Best í heimi!

Wednesday, June 3, 2009

http://lifa.is

Eitthvað er að vekjast um í heilanum á mér í sambandi við lífsgæði og kröfurnar sem við (ég) geri á lífið. Það er ekki hjá því komist hjá mér að leiða hugan að einhverju leiti að fjármálum. En þó er ég viss um að fjármál og lífsgæði haldist ekki endilega í hendur þó að það sé hluti af dæminu. Dæmið verandi lífið eins og það leggur sig. Kannski svona 10% af því.

Lífið:
Fjölskyldan 30%
Vinnan 20% (Vinnan er í þessu tilfelli dayjob, ekki ævistarf eða ástríða)
Maki 0-1000% (fer eftir þráhyggjuskalanum í hvert skipti)
Peningar 10% ?

Nevermind. Ég kann ekkert að setja lífið upp á rökvissan hátt með hagfræðilegum prósentum. Mátti reyna.

Ég er að fara í viðtal hjá Sparnaði (spara.is), en vinkona mín benti þeim á að ég gæti verið ágætis "viðskiptavinur" þar sem ég er ekkert að fela það að ég lifi á fátækrarmörkum. Það sem er súrara er sú tilhugsun að ég hafi það bara skrambi gott miðað við marga á Íslandi í dag. Ég stend í skilum, fórna þ.a.l. nærri öllu sem heitir afþreyingu (sem kostar peninga), ég leigi og hef ekki misst húsnæðið mitt, er ekki að borga þúsundmilljónir fyrir bílskrjóð á mánuði...osfrv...þetta er það sem ég fæ að heyra þegar ég kveinka mér yfir blankheitum. Að ég sé í RAUN ekki í svo slæmri stöðu...

Málið er, að ég fæ bara ekkert kikk útúr því að frétta að vinir og kunningjar séu að missa allt eða að fara á hausinn, margt af þessu fólki hefur borgað háar upphæðir í downpayment fyrir húsnæðin sín osfrv. Mér finnst engan vegin sanngjarnt að ég notfæri mér óheppni annara til að líða betur með sjálfa mig.

Mér finnst mjög leiðinlegt að sjá fréttir af ókunnugu fólki sem hefur misst allt og meira til og hvað þá eins og í dag, þegar eldklár og dugleg vinkona mín heldur að hún komist ekki í vinnuna og með barnið sitt til dagmömmu þennan mánuðinn nema með því að eyða aleigunni í bensín. Reyndar voru þær tvær með svipaðar áhyggjur í dag. Ég held að afneitun á ástandinu sé ekkert að hjálpa neinum. Það sem mér finnst skrítið er að fólkið sem er í þessari stöðu skammast sín fyrir það. Furðulegt, ekki satt? Þetta eru bara tvær manneskjur í dag. En í þessari viku hafa 3 rétt nefnt svona áhyggjur við mig. Engin er beint að kvarta og sú þriðja tók það fram að hún væri ekki að "væla".

Harka. Hvar værum við án hennar?

Þó að verið sé að taka þig fjárhagslega í r**s er mjög mikilvægt að kvarta ekki og halda haus.
Þú gæti nefnilega eyðilagt stemninguna.

Followers