Thursday, October 29, 2009

nýtt

ég er farin að blogga á solveigedda.com.

Wednesday, October 14, 2009

34 ára

Í tilefni dagsins ákvað ég að skrifa, því að í dag 14.október 2009 er ég 34 ára. Fyrir 10 árum fannst mér það ansi hár aldur. Hvað þá fyrir 20 árum (ég man ekki nógu vel eftir tilverunni þá eins og hún birtist mér) Ég man bara að mér fannst móðir mín hundgömul þegar hún var 34 ára.

Meiri misskilningurinn þessi aldur.

Ég man eftir því þegar ég heyrði gamlinga segja við hvort annað hálf hlæjandi að þeim fyndist þeir ekki hafa elst neitt. Fyndust þeir ekki vera eldri en 25 ára! Guð hvað ég var hneyksluð. Eiginlega móðguð að heyra svona over the hill- lið vera að líkja sér við okkur unglingana. Mér fannst lífi þeirra lokið, eða ætti svona að fara að ljúka því nú væri mín kynslóð, eða X-kynslóðin (sem mér fannst sko töff nafn á kynslóð) að koma að redda málunum. -Tónlistinni, tískunni, pólitíkinni, listinni og bara öllu því sem þurfti að redda. Því VIÐ værum málið. Ójá. VIÐ. Unga fólkið. 

Soundtrackið við okkur var Fire Starter með Prodigy og það var töff að reykja sígarettur. 

Nokkur ár hafa liðið síðan þá og ég fylgist með hvernig x-kynslóðin reynir að bjarga málunum...Reyni eitthvað að leggja til en tek eftir því að á eftir okkur eru fleiri kynslóðir sem ætla LÍKA að redda málunum. Hreinsa upp eftir okkur. Eftir þau.

Ojæja, ég fer ekki lengra með þessa pælingu heldur hlakka til að sjá hvort mér líði eins og ég sé 25 ára að ári...

En í dag fyrir 34 árum fæddist ég. 
Ég ætla að halda uppá það.




Friday, October 9, 2009

Kaupmannahöfn, Albertslund. Albertslund, Kaupmannahöfn

Undanfarna viku höfum við vaknað, hoppað í sturtu, þaðan í fötin og þaðan í lestina. Allt í hoppi. Við fengum íbúð í fyrradag á Nörrebro en fáum hana ekki afhenta strax og munum því búa í Albertslund þangað til. Hún Vibeke, gestgjafinn mikli hefur búið um okkur eins og við séum hluti af fjölskyldunni. 
En allavega þá höfum við þvælst mikið um Köben í leit að tilgangi lífsins. Eða nei. Í leit að íbúð.
Við komum okkur fyrir á kaffihúsi sem serverar ágætis kaffi og frítt internet. Eiki bróðir hefur verið með okkur í liði og tosað í alla sína spott og hringt í leigusala fyrir okkur vegna dönskufeimninnar í mér. Danskan mín er fín. En þegar ég þarf að tala í síma á dönsku verð ég stressuð. Það er ekkert sniðugt að vera stressaður í síma þegar maður er að falast eftir leiguhúsnæði. Eða eitthvað.

Núh. 

Ég skráði mig loks inn í landið í dag og bíð spennt eftir danskri kennitölu. Vinur minn ætlar að tosa í spotta í umönnunargeiranum sívinsæla. Þannig að ég tók lestina heim sátt við aðgerðir dagsins. 
Á morgun skal hjálpað til hjá gestgjafanum í Albertslund.

Þannig er þetta í hnotskurn.

Tuesday, September 29, 2009

Sit hérna hálf vönkuð eftir annasama daga. Ég er enn að umpakka ferðatöskunni minni. Ótrúlegt en satt þá hefur það verið langdregnasta verkið hingað til í sambandi við þessa flutninga. Ég hef losað mig við svona sjöfalt það sem ég á af fötum, sem eru alveg nokkrir svartir plastpokar. Það er eiginlega orðið að íþrótt. Henda fötum! Veiiigamaaaan!
Íbúðin mín er, tja, ekki lengur íbúðin mín. Hún er tóm og hrein og fín, og lyklarnir fara bara í hendurnar á einhverjum öðrum. 

Ég hef selt sófasettið mitt, rúmið, antíkstóla bróður míns, fjölþjálfa og þvottavél. Einnig átti ég sunnudag þar sem ég bjó til rúmar 40 þúsund krónur í Kolaportinu. Allt sem seldist seldist á Barnalandi, nema stólarnir. Þeir fóru á Facebook. 

Sniðugt þetta internet....

Nú. Ég er búin að vera að kveðja á fullu og sumt misdramatískt. Það er þannig að mér finnst ég ekkert vera að fara langt. Ég nenni því varla að kveðja. Bara Köben. Búið þar áður fattaru. 
En ég verð að segja að hér eru manneskjur sem ég tel mig ekki geta lifað án, því hvet ég þær bara að koma líka. Hér er bara vesen. Nema eftir smá því þá er Airwaves. En eftir það er svo bara vesen. 

Í sannleika sagt er þessi færsla bara töf á frekari umpökkun. Ég get varla haldið augunum opnum, ætlaði í sturtu en meika það ekki. Því ætla ég að henda mér í bælið og sturta mig í fyrramálið. Góða nótt.


Sunday, September 27, 2009

Að tala er góð skemmtun.

Ég var að spá í það í kvöld hversu mikið býr í einni manneskju, og ef maður vill deila því með öðrum þá liggur beinast við að nota þau verkfæri sem manni er úthlutað. Munnurinn er td. nothæfur í að gefa frá sér hljóð og innan í honum myndar maður orð. Andlitið er oft tjáningaríkt og lætur oft uppi hvernig manni líður. Eða hvort maður sé hugsi...Svo eru það hendurnar og líkamsbeiting. 

En þetta með að tala. -Röddin, raddstyrkur og orðaforði er samt, þrátt fyrir allt, takmarkaður tjáningamáti. 

Oft segi ég hluti sem mér finnast þurrir, ópersónulegir og hlutlausir, sem túlkast í annara eyrum sem óhroði. Þá kemur kannski streitan í líkamanum út með röddinni þegar ég er kannski bara að segja góðan daginn og hásitgóin. Það hljómar, með fullri virðingu fyrir ástandi sem ég þarf líklega að upplifa þegar ég er komin á viðeigandi aldur,- eins og bitur kelling á breytingaskeiðinu. (nema ég verð ekki bitur. bara hljóma þannig, sem er miklu betra auðvitað).

Að tala er bara ekki nóg ef maður vill segja það sem manni býr í brjósti. Að gaspra með kjaftinum um eitthvað sem skiptir ekki máli, jafnvel það sem skiptir máli er ekki nóg. Ekki að mig langi að segja nokkrum neitt. 

Mér þætti svo gaman að sjá hvað við myndum gera ef við gætum ekki talað. 

Saturday, September 26, 2009

blablabla.

Ekki á morgun, ekki hinn, ekki hinn, ekki hinn heldur hinn er ég farin. Ég er að fara út með kærastanum mínum. Til útlanda. úúú...úútlanda....Afhverju ertu að fara?! Ísland er BEST!
Hvað þykistu vera? Þú veist þú tekur sjálfa þig með þér...? 

Afhverju ekki bara að benda mér á að það sé óhollt að reykja? (sem ég er hætt btw)

Alveg sama hvað er ömurlegt hérna er stoltið að drepa fólk.

Ég las færslu, eða heldur var bent á að lesa færslu þar sem maður skrifaði um muninn á því að vera hér eða úti. Í hans tilfelli N.Y.C. Hann var að skrifa um hluti sem ég hef mikið verið að hugsa um síðan ég kom heim. Ég veit ég hef öðru hvoru notað setningar eins og "þegar ég kom heim" og "síðan ég kom heim", en það er magnað hvað það er raunverulega skrítið að koma heim. Ekki endilega gjörningurinn að flytja, heldur hvað það er súrrealískt að búa hérna í Reykjavík. Ég hef, frá því ég var lítil flakkað héðan og út og út og hingað og ég hélt að það væri bara taugaveiklun ein að finnast óþægilegt að vera hérna. En það er þannig, hver sem ástæðan er, að ég er rólegri þegar ég er ekki hérna. Kannski er það vegna þess að ég upplifi meira frelsi -persónufrelsi, einstaklingsfrelsi (eða bara frelsi einmitt). Þó að mér hafi alveg tekist að finna til galla hér og þar, þá hef ég samt undanfarið líka talið til kostina. Og ein af ástæðunum fyrir því að ég entist í náminu í smábænum í N-MN er að ég fékk að vera nákvæmlega eins og ég er, finnast það sem mér fnanst og slaka á. Smábæir eru smábæir alls staðar, ég fór alveg á milli tannana á fólki eins og allir eiginlega. En þannig er það líka hérna. Allir hafa skoðun. Voða mikið sömu skoðunina, og ef maður dirfist að hafa gagnrýna skoðun kemur einhver leppalúðinn og bendi manni á að vera ekki gramur, eða að maður sé bara svekktur. Sem á líklega rétt á sér stundum en komm onn. Mér fannst íslendingar fífl þegar ég var 15 ára. Sama hversu mörg spor ég "vinn", hversu oft ég hugleiði og bið til "guðs" þá held é að ég sé ekki til í að bjóða mér uppá þetta.

Samt vil ég ekki alhæfa. Þegar ég segi fífl þá meina ég eiginlega bullies. Íslendingar "harka af sér", eru "stoltir" og uppáhaldið mitt svona í leyni: "SJÁLFSTÆÐIR"...
Okei. Ef það væri ekki þessi fráhrindandi hrokaslikja yfir öllu hér þá kannski myndi ég ekki dirfast skrifa þetta. En  ég viðurkenni það nú að ég man eftir svona 2 árum sem ég fílaði mig hérna. Kannski þremur.
Í ca 15 ár hef ég verið að reyna að sannfæra sjálfa mig um að ég sé bara nojuð og að það sé ekki verið að mæla mig út (engar áhyggjur, ég held ekki að verið sé að dást að mér), og það þarf ekki nema að vera vakandi til að taka eftir þessu. Minnir svolítið á svona inbreed þorp í djúpa suðrinu. 

O jæja. 


Monday, September 21, 2009

Kannski, líklega...

Kannski er ég komin með vinnu úti! Þarf víst bara að láta sjá mig...kemur allt í ljós.
Líklega er komin íbúð. 

Neinei, ég veit ekkert um þetta. En líklega fáum við íbúð. LÍKLEGA. Pottþétt. 

Í gegnum tíðina hafa hlutirnir alltaf gengið upp, ekkert af sjálfu sér neitt...ég hef alveg þurft að hafa mismikið fyrir þeim. En þeir ganga upp. Ójá. Sama hversu stressuð ég er, og hversu fáránlegar sem hlutirnir eru, þá fokking ganga þeir upp ef maður er fokking jákvæður! 

Kannski fæ ég vinnu úti og líklega mun ég búa einhversstaðar.

Þetta veitir mér meiri öryggistilfinningu en staðreyndirnar sem blasa við mér hér. Hér get ég unnið (eins og þræll í akkorði), fengið aðeins meira útborgað en unglingur í skógræktinni og borgað bankanum mínum hærri vexti og blablablablablablablablabla...jájá við vitum öll hvað er í gangi, óþarfi að röfla um það í fokking bloggi.

Ég vil taka það fram að ég verð orðljót undir álagi. 

Saturday, September 19, 2009

Sonur minn er enginn hommi...



...hann er fullkominn eins og ééég....

Vaknaði í morgun með þetta viðlag á heilanum. Man ekki hvað mig dreymdi en fannst þetta fyndið svona í upphafi dags.

Ég var að setjast niður eftir að hafa verið að róta til í draslinu mínu. Ég er með 3 flokka; Rusl, Geyma og Taka með. Mér til óvæntrar ánægju fer mest af mínu dóti í ruslið. En ég er mjög hæfileikarík þegar það kemur að því að SAFNA.  Draslið sem ég hef dröslast með á milli íbúða, landa og heimsálfa er náttúrulega allt of mikið. Nú ætla ég ekkert að taka neina austræna heimspeki á þetta, en það er eitt sem ég spyr sjálfa mig að þegar mig langar að setja rusl í kassa og GEYMA það. 
Ég segi: Solveig Edda! (í ógnandi tón), -hefur þú haft einhver not fyrir þetta drasl síðustu 10 árin??
-Þá skammast ég mín og fatta að ég hef ekki saknað þess í svo mikið sem sekúndu síðustu 10 ár.
Svo hugsa ég mig veeeel og leeengi um og græt jafnvel krókódílatárum þegar ég ákveð að ruslið skal það fara. 

Þetta ferli tekur heldur betur sinn tíma og því sit ég hér eftir langdreginn dag með tilhlökkun í hjarta því að innan klukkutíma mun ég henda þessu drasli í sorpugám.

Og já. Ég er ennþá að selja gullfallega antík sófastóla. Allt skal fara!


Friday, September 18, 2009

Svöl

Að vera svalur þýðir að maður er í fyrsta lagi ekki stressaður. Það er aðalatriði. En að vera svalur er líka að takast á við fólk og aðstæður eins og maður sé bassaleikari. Eða eins og ég ímynda mér bassaleikarapersónuleika - Segir svona hnyttna one-linera sem koma samt smooth út, tala samt lítið og glotta mikið...  Einhver sem er ekki með neitt vesen, en á ekki vandræðum með að leysa ágreininga. Manneskja sem pirrast aldrei þannig að það bitni á öðrum. Bara svona kammó. Samt líka töff. En ekki of töff því það er fráhrindandi. Þokkafullur án þess að vera að reyna það og...jájá...þessi persónuleikalýsing mín er að verða (orðin f. löngu) allt of tja..ei-svöl. Taugaveikluð og vonmikil um að "þið" skiljið hvað ég á við þegar ég lýsi því hvernig mér væri til í að líða núna. Fyrir utan glottið.

---

----

Sunday, September 13, 2009

Hrafnaþytur



Ein myndanna sem verður á sýningunni. 18. sept. 2009. Laugavegi 170, sýningarsalnum Hurðir.


Góðar stundir!

17 dagar

Ég var minnt á það að ég þyrfti ekki að hafa vissar áhyggjur eftir sautján daga. Því þá er það of seint.

Það er nóg að gera þrátt fyrir að ég sé óvinnufær. Ég hringi í Orkuhúsið á morgun og fæ þá líklega að vita hvað kom út úr myndatökunni. Hvort hnéð á mér sé bara svona þreytt og þurfi hvíld eða hvort ég þurfi að láta skera í það og laga. Ég er að vona að ég eigi bara að taka pillu við þessu því ég er síður en svo spennt fyrir því að láta skera. Ég vildi að ég hefði hlaupið á almennilegri skóm, og ég vildi að ég hefði ekki þurft að vinna svona mikið á fótum og ég VILDI að hnén á mér væru eins og þegar ég var tvítug. Læknirinn sagði nefnilega að svona meiðsli væru algeng hjá fólki sem er ekki lengur tvítugt. Svo brosti hann.

Fyrir utan það að mega ekki stunda líkamsræktina mína (sund, göngur og skokk), þá held ég að það versta við þetta sé að þurfa sífellt að vera að biðja hinn og þennan að skutla sér eitthvað. Það hefur orðið til þess að ég fer voða lítið út úr húsi því ég nenni ekki að hanga í rassgatinu á fólki og verða vinkonan sem hringir bara þegar hana vantar far.

Saturday, September 5, 2009

Annir

Þó ég sé bækluð í hnénu þannig að ég get ekki gengið neinar vegalengdir til að tala um, þá læt ég það ekki stoppa mig í að gera nákvæmlega það sem ég þoli. Eins og að pakka og selja hluti.

Nú er ég búin að selja sófasettið mitt fallega, og hitti kaupanda rúmsins míns (vonandi) á eftir. Einnig er ég að selja fallegu antík stólana sem hafa prýtt stofuna mína síðan ég flutti.
Ég sé fram á að vera búin að grisja út það sem ég vil geyma VS. draslið sem ég hendi. Drasl-hlutinn er stór og ég held að þegar ég er búin að henda því þá eigi ég næstum því ekkert.

Ég sé fyrir mér að fara út bara með eina ferðatösku. -Ég vona það.

Þegar ég flutti til BNA árið 2004 átti ég erfitt með að henda fyndustu hlutum. Eins og mynd sem ég fékk í fermingagjöf frá einhverjum, eftir listamann sem ég þoli ekki (einhver sem tróð gyllingu inná allar hvítu myndirnar sínar), og glerið var brotið í rammanum! -Það var bara óhugsandi gjörningur að henda þessu í ruslið, vegna tilfinningalegu tengslanna gagnvart henni.
Ég þoldi ekki þessa mynd. Þó finnst mér vænt um minningarnar tengdar henni, sem ég á hvort sem ég á myndina eða ekki.

Ég hef átt nóg af svona drasli.

Svo eru það hlutir úr "fyrra lífi". Ég á nokkur þannig. Gjafir frá fyrrverandi og annað drasl sem ég fíla ekki einu sinni. Já einmitt. Best að drösla því á milli landa. Eða fá að "geyma" þetta hjá velviljaðri vinkonu.
Svona er þetta. Samt safna ég því aftur og aftur. Kaupi mér hluti sem ég eeeeeeelllllska, eða flík sem er svo frábær að ég er til í að segja upp leigunni og flytjast í hana...Svo ranka ég við mér, hristi hausinn og lofa sjálfri mér að gera þetta aldrei aftur.

O jæja.

Friday, September 4, 2009

Vilji

Í morgun ákvað ég, að fara bara víst út að þvælast. Þó ég sé hálf bækluð í hnénu. Ég snéri við þegar ég var komin að strætóskýlinu því mér stendur ekki á sama um sársaukann sem kemur þegar ég stíg í fótinn.

Sem betur fer á ég pantað hjá bæklunarlækni á mánudaginn. Þetta gengur engan vegin!

Ég sem hreyfi mig frekar mikið. Samt er ekki alltaf einhver brútal líkamsræktargeðveiki í gangi, heldur geng ég yfirleitt meira en 2 km á dag (þá tel ég vinnuhlaupið með)...Annars hef ég rölt mér úr miðbænum yfir í Litla Skerjó eins og ekkert sé sjálfsagðara. Þaðan og í vinnuna og úr vinnunni í sund. Í sundinu syndi ég orðið ekki minna en 1500 metra sem enda í 2000 metrum því mér finnst það betri tala.
1. sinni til 3. sinnum í viku hef ég svo slegið til og farið út að skokka. Ég hleyp 5-7 km þegar ég hleyp.

En þetta er ekki montblogg. Þetta er opinbert kvörtunarblogg hreyfifíkils. Ekki extreme-sport-fíkils. Bara konu sem finnst gott að vera á hreyfingu, en hefur ekki getað gert neitt í meira en viku!

"Hreyfing er góð fyrir geðið." -sagði kripplingurinn og urraði.

Wednesday, September 2, 2009

Mamma.

Nú ætla ég að blogga örlítið um móður mína.

Meirihluta ævi minnar hef ég verið sátt við hana, og hef ég oft skemmt mér konunglega með henni. Mér finnst hún til dæmis með fyndnustu manneskjum heims. Svona oftast. Stundum langar mig samt að grafa mig í holu þegar hún segir brandara...eða pönn og orðaleikni eins og er vinsælt í minni fjölskyldu. Orðaleikir eru vel séðir þar. Enda allir ótrúlega gáfaðir í henni.

Við höfum, eins og algengt er meðan mæðgna, átt okkar stormasömu tímabil þar sem ég sver á biblíuna og krossa mig og tíufingurupptilguðs-vonað ég deyjjji, að ég muni alllldrei tala við hana aftur. Sem er by the way, EKKERT dramatískt!

Nú.

Ég sættist alltaf aftur við hana og þrátt fyrir allt er hún mamma mín, sem mér þykir svo vænt um og er svooo góð við mig. 

Þá eigum við löng tímabil þar sem við erum mestu mátar og ég kann ægilega vel að meta hana og furða mig á því hvernig ég gat verið svona óvægin, og látið kynslóðabilið og sömu djókin fara í taugarnar á mér. Hún er líka góð í að lengja stuttar frásagnir, sem er alveg gaman. Nema þegar frásögnin er sú sama og síííðast er ég talaði við hana. Þá kikkar inn eitthvað alveg sérhannað fyrir hana!  Svona pirringur sem fæðist vegna þess að nú veit ég að ég er að fara að hlusta á það sama og síííðast! Og guð og himnarnir vita að ég  er aaaallt of upptekin og mikilvæg til að geta hlustað á endurtekningu móður minnar í 7 mínútur. En svo þegar hún hefur lokið máli sínu segi ég eitthvað ótrúlega merkilegt og uppfrá því býður hún mér eitthvað, eða sýnir hugarefnum mínum mikinn og einlægan áhuga, og styður mig í það óendanlega. Þá fæ ég samviskubit. Hræðilegt samviskubit vegna þess að ég var inní mér svo leiðinleg að það komst út í hranalegum Já-um,Égveit-um og Einmitt-um. En þar sem mamma er mamma fyrirgaf hún það án þess að taka eftir því.

Móðir mín er frábær. Hún er mikill einstaklingur og ég kann, eftir því sem ég eldist, alltaf betur og betur að meta það. Einstaklingar eru vanmetnir. Nema þeir séu "kúl". Sem mamma mín er..erhm...ekki. Enda er það stohórlega ofmetið ;)


Monday, August 31, 2009

Flutningar

Það er hægt að segja að ég hafi flutt oft.

Það er líka hægt að segja að ég hafi oft flutt á milli landa.

3ja ára kom ég til Indiana í Bandaríkjunum með fjölskyldunni, snérum heim þegar ég var 7.

Á 13 ári (tíu árum síðar) fluttum við í rétt rúmt ár til Tacoma í Washington fylki. Heim aftur 14 ára.

Hérna vesenast ég í Hagaskóla, MR, FB, Iðnskólanum - og svo fór ég bara að vinna, vesenast og skemmta mér.

22ja ca. flyt ég til Kaupmannahafnar og bý þar í 2 ár.

Kom heim, vann og dreif mig svo aftur í skólann. Kláraði hönnunarnámið 26 ára.

27 skráði ég mig í háskólanám og flutti til Minnesota, í friðsælan háskóla/veiðimannabæ sem kallast Bemidji- Á indíánamáli þýðir þetta: "Þar sem áin rennur í gegn". Enda er þetta fyrsta áin við Mississippi ánna. Nóg um þetta, enda ekki mikið meira um þennan bæ að segja, annað en að SEM BETUR FER var hægt að skreppa til Mpls/st.Paul öðru hvoru.

Í maí '08 er útskrift og varð ég bachelor í Myndlist. Tók samt helling í iðnhönnun (10 einingar í að fá Bsc gráðu), en hef ekki áhuga á því. (En sorglegt, ég sem ætlaði að vera frk. Praktísk).

Ég kom heim í júní eða júlí, man ekki hvort eins og er. Hef verið hérna í rúmt ár.

Venjulega líður lengra á milli flutninga hjá mér en nú, því ég er að fara úr landi aftur.
Aftur til Kaupmannahafnar.

Undanfarið hef ég verið spurð að því hvers vegna ég vil flytja. Ég veit ég ber kreppuna fyrir mér og svona eitthvað...En þegar ég hugsa um hana. Raunverulegu ástæðu þess að ég vil flytja...þá er svarið einfalt.

-Af því mig langar til þess.

Saturday, August 22, 2009

Draumfarir og orðin þrjú.

Ég vaknaði með tilfinningu sem er ekki svo góð. Ég vaknaði með þrjú orð á heilanum. Meira svona eins og þau væru að stríða mér. Svona eins og stórar, feitar og háværar húsflugur sem sveima í nágrenni við mann, en svo þegar maður er búin að slaka á koma þær svo nálægt að það er eins og þær ætli inn í heilan á manni í gegnum eyrað....Ah...allavega ég þoli þær ekki.
Ég sem er í fréttapásu. Kemst ekki alveg hjá því að heyra fólk jarma, eða að kíkja á fyrirsagnir. Reyndar er vonlaust að vera á kvöldvakt því þá eru fréttirnar yfirleitt áhugaverðari en sjálf vaktin...

Icesave, ESB og greiðslubyrði.

Icesave.
ESB
Greiðslubyrði

-Út frá þessum orðum spunnust svo hinar ýmsu leiðindahugsanir. Þó stóð uppúr sú hugsun að ég hlyti að vera orðin klikkuð þar sem ég NENNI EKKI AÐ HUGSA UM ÞETTA LENGUR. Að vakna í einhverri þráhyggju um ástand landsins þar sem ég bý. Og að reyna að reikna út bestu og hraðskreiðustu leiðina fyrir mig persónulega til að borga bankanum mína skuld. Kommonn klukkan er átta á laugardegi. Chill.

Ég sem sé fyrir mér fullkomin heim, eða líf þar sem kærleikur, gleði og frelsi eru einkunnarorð allra. Ef ekki allra, þá allavega minna! Þessi 3 orð (Icesave,ESB og Greiðslubyrði) eru bönnuð hér með. Ég vona að ég vakni klukkan tíu í fyrramálið, og fái að dreyma litfögur fiðrildi í ævintýralegri náttúru og finni fyrir kærleik, gleði og frelsi.

Hitt sér um sig sjálft.

Jesús. Þvílík byrjun á morgni. Og það á fríhelgi!

Thursday, August 20, 2009

Kirkjugarðsvakt.




Nú. Ég vonast til að þetta blogg verði stórkostlegt. Því kröfur mínar á sjálfa mig og lífið eru, að ekkert sé þess virði að gera það nema að það sé stórkostlegt og leiði af sér stórkostlegar hluti. Ég vil bara hitta stórkostlegt fólk og borða stórkostlegan mat. Því líf mitt er stórkostlegt!!

En í kvöld er það næturvakt. Á meðan bíða stórkostlegheitin betri tíma. Enda er þetta of langt lýsingarorð til að vera að tyggja á því hér.

Ég svaf ekkert í dag fyrir þess vakt og sé fram á steikta tilveru um fjögurleitið í nótt. C'est la vie...

Það styttist í sýninguna mína á Laugavegi 170 og svo er ég að huga að flutningum.  Mikið hlakka ég til. Ég hef verið hérna í rúmt ár og finnst vera komið gott. Nenni ekki að vera hér lengur. It's been fun, but I gotta go. Sumt þarf maður ekki að sætta sig við. Ég þarf samt að redda mér góðum ferðatöskum, það eru nefnilega nokkrar manneskjur sem ég þarf að taka með mér héðan...

Wednesday, August 19, 2009

Íha!

Eftir allar heimspekilegu hugsanirnar sem ég hef hugsað þessa síðustu 8 daga, hef ég nákvæmlega ekkert merkilegt að blogga um. Sem er kannski markmiðið með þessu öllu hvort sem er. -Ekki að hafa ekkert merkilegt að blogga um, heldur að hafa ekkert merkilegt að hugsa um. Merkilegar hugsanir teljast til íþyngjandi, mótsagnakenndum og bölsýnum endurtekningum sem ramba um heilann og öskra af og til einhverskonar "svari" við tilvistarkreppunni sem þetta líf er. En það er ekki svo einfalt því það er stríð þarna uppi. Og mér virðist það ekki snúast um neitt og ég veit ekki alveg hver er að vinna það. Ég veit bara að stundum er mikið varið í þetta ferli vegna þess að það kemur oft eitthvað skemmtilegt út úr því.

Stundum er maður bara svo sniðugur ;)

Thursday, August 13, 2009

kreppakreppakreppa?

Mikið væri gaman ef maður væri bara að misskilja þetta allt saman. Því miður er ég búin að vera vitni að mannvonsku oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Orðið mannvonska er eitt af þeim orðum sem ég hef ekkert notað held ég, ever. Hef einhvern vegin ekki trúað því uppá fólk að vera það glatað, né heldur hef ég endilega verið að leita uppi galla þeirra sem ég umgengst. Ég fatta yfirleitt ekki hvað fólk getur verið rotið fyrr en eftir að búið er að segja eitthvað áberandi glatað við mig. Helst oft. Verra finnst mér
þó að vera vitni að kúgun gegn öðrum. Í dag var ég það. Vitni að því hvernig nett yfirvald (authority) nýtir sér sína aðstöðu og pissar yfir tilverurétt annara. Bara vegna þess að manneskjan var í stöðu til að sýna "yfirburði" sína.
Þetta sé ég oftar og oftar eftir að KREPPAN skall á. Málið er. Ég redda mér. Þó að bankanum sé sama og að ég þurfi að vinna allan sólarhringin (eins og aðrir sem hafa vinnu) þá hef ég leyft mér að pípa af og til í "sjálfsvorkun" yfir stöðu minni og kyngt því bara og haldið áfram.
Því að þó að ég eigi ekki fyrir mat þá hef ég það bara nokkuð gott miðað við marga hérna. Og er ég ekki að vera kaldhæðin.

Ég sá í dag dæmi um hvernig fólk er að nýta sér ástandið til að hefja sig upp á öðrum. Djöfull er ég þreytt á þessu og þreytt á því að þurfa að þegja yfir vonbrigðum mínum. Það er engin lausn í því að láta eins og allt sé í kei...

Annars er ég bara hress. (mér finnst eins og ég hafi skrifað þetta nákvæmlega sama blogg áður)

Saturday, August 8, 2009

Aðfaranótt sunnudags

Þegar ég var úti kynntist ég mikið af allskonar fólki. Mér fannst líka áhugavert að koma inn í trailer sem ein bekkjarsystir mín átti. En það er ekkert tiltökumál að vera nemi og búa alls konar. Fyrst þegar ég sá hvernig hún bjó þustu fordómar í gegnum mig alla eins og það væri hreinlega eina uppistaðan í mér. Mildin og auðmýktin hvarf og ég fann hvað ég varð ringluð. -En bara í augnablik. Síðan varð mér slétt sama um hvernig fólk bjó, því ekki þótti mér fínna liðið sem bjó ennþá inná foreldrum sínum eða á vistinni, eða liðið sem leigði og bjó með fullt af fólki - eins og ég.

Málið er að ég mætti mínum eigin fordómum þarna. Ég kynntist svona rich-kids sem báru ekki virðingu fyrir neinum, og ég komst að því með tímanum að ég yrði hreinlega að kynnast fólki betur en bara yfirborðslega ef ég ætlaði að geta áttað mig á því. Eignir, eða eignarleysi segir mér allt of lítið um fólk (ekki neitt)...nema kannski að það eigi, eða hafi átt pening, eða sé fátækt. En persónur eru svo miklu meira en það, og gæfa fólks getur breyst á svipstundu til hins betra eða verra. Þessvegna REYNI ég að dæma ekki fólk og trúa því að það sé kannski ekki eins og ég held í fyrstu. Það er alltaf gaman að láta koma sér á óvart.

Málið er að í kvöld(nótt), sem ég sit hérna með enn eina fokking flensuna kl. 2:20 að nóttu til, bíð ég eftir að nágrannarnir hérna í fína hverfinu slökkvi á fokking græjunum sínum, haldi kjafti og kannski átti sig á því AF SJÁLFSDÁÐUM að það er inni í MIÐJU íbúðahverfi. En þetta fólk, í fína húsinu, í fínu fötunum er einmitt gott dæmi um skítapakk sem á sér líklega ekki viðreisnar von. Meira að segja trailer park er of gott fyrir svona lið. Þar yrði það hvort eð er barið í spað fyrir svona læti að nóttu.

Djöfulsins kjaftæðisrumpulýðspakk. Ahh...meira orðbragðið..

Tuesday, August 4, 2009

Haust og hugmyndir.

Loksins er haustið komið. Nú er hægt að fara í göngutúra í eðlilegri birtu og jafnvel smá rigningu. Ég fékk meira að segja hugmyndir í fleirtölu í dag. 

Fyrsta sýningin mín síðan ég kom heim verður haldin í byrjun september, og ég er komin með annan fótinn inn í gallerí.

Ég er með 3 striga fyrir framan mig núna sem eru að þorna. 

Í kvöld komst ég upp úr einhverjum hugmynda-og framkvæmdaleysis fíling og ég er sannfærð um að það sé haustið. Myrkrið og kyrrðin í sólarleysinu vekur huga minn upp úr eirðarleysinu sem íslenska sólin færir mér. Þetta með að píra augun í tíma og ótíma er bara þreytandi, enda er síðdegislúrinn minn hálfgerð rútína orðin. Nú get ég hætt að velta mér uppúr því hvort ég sé félagsskítur að nenna ekki að hanga í sólinni allan liðlangan daginn, og fagna enn og aftur HAUSTINU. Tíma sköpunnar.

Að léttara og yfirborðslegra hégómahjali:

Gaman að segja frá því samt að ég er svakalega vel tönuð vegna sundferða minna. Enn skemmtilegra er að nefna að ég hef aukið vegalengdina þar um 1,5 km. Sem gerir 2.5 km. Kannski er þetta bara merkilegt í ljósi þess að fyrir ári síðan gafst ég upp eftir 2 ferðir.
En nú fæ ég mér sólarvörn, sundgleraugu og carbamid krem. Klórinn er alveg að rugla í húðinni og augunum á mér. Ég hef þó haft vit á því að bera Kerastase lagaónýtthár-hárnæringu á hreiðrið sem ég kýs að kalla hár...

En jæja. Fjörið er búið, klukkan er orðin aaaallt of margt og ég er farin að sofa.

-Þar til næst.



Monday, August 3, 2009

Út í sveit

Mikið væri ég til í að búa úti í sveit þar sem ég gæti bara málað og lifað. Mig langar minna og minna að vera hérna í Reykjavík, og ég held að þetta ár sé ágætis reynslutími.
Ég er alltaf meira og meira ósammála meirihlutanum. Það í sjálfu sér skiptir sosum engu máli enda nenni ég ekki að vera í einhverri gelgjulegri uppreisn, heldur er komin tími á að fara að koma sér fyrir þar sem mér (mjög mikilvægt) ->líður vel. En þetta sættasigvið-ástand er ekki að gera sig. Ekki að mig vanti svo mikið af betri hlutum og drasli, heldur vantar mig einmitt meiri tíma. Mér kemur ekki við hvaða lífsstíll er í tísku, eða þykir ákjósanlegur. Sérstaklega þegar ég eyði hvort sem er meirihlutanum af mínum tíma í vinnunni og lifi frekar mínimalísku lífi.  

Ég veit að hlutir og aðstæður breytast og að lífið er viðkvæmt fyrirbæri. Það má kalla það flótta. Flýja aðstæður. -Eins og það sé einhver dyggð að sýna hollustu við vitleysuna hérna? Finna til sín í einhverri biturri réttlætiskennd? Sýna samborgurum samstöðu? Rosa samstaða í gangi hérna líka...

Upphaflega ætlaði ég að flytja Vestur á firði. Ég fékk nú gagnrýni út á það. Fólki fannst alveg sitt um þann "flótta". 

Ári síðar langar mig ennþá, ég er sveigjanlegri með staðsetningu sveitarinnar þó. Mikið er ég fegin að vera búin að missa heyrnina.

Ægileg blogggleði er þetta.

Sunday, August 2, 2009

What a difference a day makes

Fyrir þá sem ekki fara mikið út að skemmta sér, þá mæli ég eindregið með því að fara á tónleika innan um fullt af fólki sem þig langar ekkert að hitta. Ég er frekar neikvæð þegar kemur að því að fara á djammið og fer því sjaldan, kannski vegna þess að mér finnst fullt ókunnugt fólk ekkert sérlega skemmtilegt. Hvað þá að eyða þeim litla frítíma sem ég hef í að nuddast utan í því. Ég álpa alltaf út úr mér afsökunarbeiðnum þegar ég rekst í fólk og verð því miður oft svo pirruð á því að aðrir gera það ekki.

EN!

Í kvöld samþykkti ég að kíkja út með Evu vinkonu. Við fórum á tónleika með Ljótu Hálfvitunum á Rósenberg. Það var ágætt. Þeir voru voða fyndnir og krúttlegir og spiluðu eiginlega bara skemmtilega tónlist. Hæfileikamenn þar á ferð. Líklega vanmetnir og væntanlega með framtíðina fyrir sér í sveitaballapakkanum(eins og það sé einhver annar pakki sem hægt er að "græða" á...nema að komast út.) Nú kannski eru þeir búnir að vera að rosa lengi og kemur þá í ljós hversu illa ég fylgist með. 
Við röltum á Boston og sátum úti á pallinum þar sem ég hitti gamla vini, ægilega gaman. Svo ómaði villt rokk frá Dillon. Fín stemning.

Ég var komin heim fyrir miðnætti samt sem áður.

Mikið var samt gott að komast í návígi við fíflaskap og tónlist. Ég held ég fari aðeins meira út (fer líklega eftir 2 mánuði ef ég legg mig fram). 


Á kafi

Ég er ein af þeim heppnu sem er með vinnu, og nú um mánaðarmótin fékk ég heilar 5 þúsund krónur frá skattinum (kom sér vel þar sem mig langaði að kaupa í matinn), og svo kom inn á reikninginn minn LAUN.  Nú. Þegar ég var búin að borga alla reikninga lagðist ég í rúmið og kom mér vel fyrir í fósturstellingunni. Svo þegar ég var orðin þreytt á að vorkenna sjálfri mér fyrir að eiga ekki bót fyrir boruna á mér ímynda ég mér ég búi í samfélagi með fólki sem hendir glæpamönnum í fangelsi og lætur mig ekki líða fyrir þeirra heimsku. Ég ímynda mér að ég greiði reikningana mína með réttu og fari svo í búðina, kaupi mat fyrir vikuna og skelli mér út að borða og í bíó. Svona eins og venjulegt fólk gerir. 
Að ég geti hlakkað til að kaupa mér flugmiða til bróðir míns og litla frænda í Danmörku eins og ég hafði planað. -svona síðbúin útskriftarferð. En nú er meira en ár síðan ég kom heim og ég er hægt og rólega að gera mér grein fyrir því að kannski, mögulega er ekkert að fara að lagast. Því á eyjunni þar sem allir segja allt fínt, er allt að fara til helvítis.

Ég hef ákveðið að leysa þetta með því að auka sundferðir mínar og vera sem lengst í kafi.

Thursday, July 30, 2009

Helvítis Andskotans?

Mér varð hugsað til hennar Guðbjargar í vikunni þegar mér var bent á að Kraftædemig, þýddi :krabbamein éti mig. Auðvitað. Ég sem kann dönsku og alles átti að vita þetta, mér fannst bara svo skemmtilegt hvernig þetta hljómaði...KRAFTÆDEMIG! 

Hrikalegra blótsyrði er varla til. Að maður sé nógu brjálaður yfir einhverju að maður kalli svona hræðilegan sjúkdóm yfir sjálfa sig! Danir sko.

Útfrá því hef ég verið að hugsa um íslenskt blót, og hvað sé svona hræðilegt að segja Fjandans, Hlevítis, eða Djöfullinn þegar manni verður á?
Það er hreint ekki hræðilegt. Það versta við það er að það er neikvætt og getur gert fólki í kringum mann bilt við, eða pirrað það. Það er allt annað mál og það er þessvegna sem ég hálfpartinn þoli ekki að heyra of mikið af blóti, eða réttara sagt þegar það er notað í öðru hverju orði, nema þú sért frá Austfjörðum. En hressandi blótshruna er allra meina bót þegar manni er misboðið.

Svo finnst mér íslensku jólasveinarnir meira scary en fjandinn, djöfullinn og helvíti og ég gæti talið til ýmsar ástæður fyrir því. En kannski er það óþarfi þar sem ekkert af þessu er raunverulegt. Krabbamein er aftur á móti eitthvað allt, allt annað.


Sunday, July 26, 2009

Hugleiðsla.

Stundum hugsa ég svo hátt að ég er hrædd um að það heyrist.

Þegar fólk segir um börn, "Hann er bara eins og HUGUR minn" sé ég fyrir mér kolgeggjaðan lítinn brjálæðing sem þolir ekki minnsta áreiti og fer handalaup í staðin fyrir að skríða. Barn sem ískrar í staðin fyrir að hjala og krakka sem hlýðir ALDREI. Ever.

Wednesday, July 22, 2009

Smá snakk með vídeóinu

Mikið hafa dagarnir verið fínir undanfarið. Fyrir utan smá flensu í síðustu viku þá hefur áhugi minn á lífinu aukist. Kannski er það vegna stóraukinnar hreyfigetu (þols). Kannski vegna tóbaksleysis. Kannski bæði.

Adrenalín er nýja dópið mitt. Maður verður alltaf að hafa eitthvað dóp til að gleðja heilann sinn. Amfetamín og kókaín er víst ekki gott fyrir heilann þó að fólki líði oft stórvel af því, niðurtúrinn er svo annað mál. Gras er líka ágætt hef ég heyrt, en persónulega myndi ég ekki nenna að reykja það, ég yrði svo pirruð á letinni í sjálfri mér.

Ég held ég geti talið á fingrum annarar handar skiptin sem ég hef tekið smók af kanabiss-sígarettu, og einu sinni þáði ég kökusneið sem var víst alveg stútfull af einhverju gæðagrasi...Var mér sagt að fara rólega og að vera ekkert að klára hana. En þarna er ég í Bandaríkjunum og hafði náð að borða svo mikinn mat og vera svo oft svöng að ég kláraði bara víst sneiðina! Nema að þarna er húsfélagi minn með eitthvað grútleiðinlegt partí sem ég nennti ekkert að taka þátt í þannig að ég var bara uppi í herbergi að lesa (horfa á innantómt sjónvarpsefni). Svo líður og bíður og ég hugsa með mér, iss, gras er drasl...og pæli mikið í því hvað hljóti að hrjá grasreykingamenn og finnst þessir krakkar þarna niðri ægilega vitlausir að vera svona æstir í þetta rusl. Svo gerist það, ég er að leita mér að einhverri sæmilegri afþreyingu og svo hitti ég á þennan líka fyndna sjónvarpsþátt, sem hittir svo vel á hláturtaugarnar og kitlar þroskaða skopskyn mitt upp úr öllu valdi! Hvern datt í hug að semja þvílíka SNNNIIIILLD???

Ég lá þarna ein í hálfgerðri móðursýkisgleði yfir hnyttninni. Mér var svo létt eftir þessa hláturhviðu, og fannst ég sjálf einmitt líka svo létt. Mikið var orðið gaman. Samt var þessi kaka sem ég át ekkert að virka? Jæja, eftir nokkur hlátursköst til viðbótar varð ég svöng. Enda er ekkert betra en að eiga snakk með góðri bíómynd. Ég fór niður í eldhús, opnaði ísskápinn og tók ALLT úr honum. Svo mikill var valkvíðinn. Frystinn kíkti ég líka í þó ég ætti ekkert í honum. Ég fékk lánaðan hálfan líter af súkkulaðiís og fór upp.

Mig minnir að ég hafi klárað afmælisköku og ísinn ásamt einhverjum brauðsneiðum með majonesi og skinku....(man ekkert hvað var á þeim.) Ég veit bara að ég fór langleiðina með að klára allt sem ég dröslaði með mér upp. Svo svöng var ég.

Mikið var gaman!

Þó var eitt sem ég tók ekki með í dæmið í byrjun. ÁÐUR en ég gæddi mér á saklausu kökunni sem hafði ENGIN áhrif...What goes up must come down. Kannski má þýða þetta: Það sem skýst upp, skellur niður.

Því mórallinn yfir því að éta allt innihald ameríska ískápssins milli þess að raunverulega skemmta sér yfir EVERYBODY LOVES RAYMOND er...mikill.

Friday, July 17, 2009

Abbó krækiber í Helvíti.













Jæja, nú er dagur 3 í veikindum, en ég er ein af þessum heppnu sem náði pestinni. Svo hef ég orðið vör við að fleiri eru veikir. Hvernig veit ég að aðrir eru veikir? Jú-auðvitað er það Facebook að þakka að mér líður ekki eins og krækiberi í Helvíti. Því í gær dúkkuðu upp nokkrir statusar eins og þessir:


Gunna veik :(
eða
Jón með hita :(

Og því fleiri sem urðu veikir því glaðari varð ég! Því þá var ég ekki lengur ein með dularfullu flensuna. Nú var hún orðin viðurkennd. Ég þjáist nefnilega af því að efa sjálfa mig og þá sérstaklega ef ég veikist. ID-ið mitt breytist í yfirmanninn sem ég á í martröðum mínum. Yfirmanninum sem trúir ENGU sem ég segi, og SÉRSTAKLEGA ef ég veikist. Því að í martröðum mínum heldur yfirmaðurinn minn alltaf að ég sé á fylleríi í staðin fyrir að ég hafi orðið veik með flensu. En yfirmanninum langar nefnilega alltaf sjálfum á fyllerí en getur það ekki sökum ábyrgðar sem hann ber í vinnunni. Martraðir eru þannig. Allt sem manni finnst óhugsandi gerist. Ef þú ert hjartahreinn gruna þig allir um græsku osfrv. 0sfrv.

Talandi um martraðir. Ég fékk eina slíka í nótt. Fyrrverandi kærasta mannsins sem ég er svo skotin í var í aðalhlutverki. Hún var eitthvað að ybba gogg og glenna sig. Ég man ekkert hvað gerðist sosum. Ég vaknaði afbrýðissöm. Asnalegt að vakna þannig. Líka fyndið. Afbrýðissöm vegna eigin draumfara...

Enníhú. Á þessum degi 3 í leiðindum og ætla bara að horfa á Woody Allen og sjá hvort ég nái ekki að hugleiða mig inn í batann.

Tuesday, June 30, 2009

Allt fyrir peninga

Nú þar sem ég er komin í heila 8 daga í sumarfrí get ég loksins unnið almennilega. Ég hef nefnilega komist að því að líf sem átti að snúast um listina, er farið að snúast um peninga.

Mammon þykist samt bara hafa sigrað. Hann hefur litið inn áður nefnilega.

Fyrir ári gaf ég afganginn af hlutunum mínum, stóra kassa með fötum, stóla, nýtt rúm heilan helling af skóm og svo flest allt eldhúshæft. Hluti sem ég þoldi ekki hvort sem er og svo hluti sem ég elskaði og hafði fengið í gjafir frá fólki sem skiptir mig máli.

Ég hélt að ég myndi verða voðalega frjáls og andleg, en umfram allt með minni byrði-fortíð-pakka. Pakki. Ég nefnilega fór í "allan pakkann", mann, hús, bíl(a), peninga, stöff. Þegar hætti að hrikta í stoðunum á sambúðinni og þær hrundu og sukku í sandinn fannst mér ég ekki geta yfirgefið manninn því að þá myndi ég "missa allt". Húsið, bíllinn og draslið. Innbú og húsgögn. Það sem gerir mann fullorðinn. DRASL. Síðan þá eru nokkur ár.

Það hefur tekið tíma að aðlagast aftur, greinilega (annars væri ég ekki að tjá mig um þetta) og er ég breytt manneskja. Því hlutir sem fólk gerir getur breytt því. Eða-ef heilinn er fær um að beygja sig. -Hlutir sem gerast í lífi fólks getur fullmótað það. Því er ekki um neina breytingu að ræða. Kjaftæðið er bara farið.

Ég á nýbakað brauð, heila heilsu og fullt af hugmyndum sem eru í ferli.

Á Íslandi.
Drasl-laus. Vaknaði í morgun með sumarbuxur sem ég gaf á heilanum. Aldrei fæ ég Explorerinn á heilann. Enda væri það fáránlegt.

Wednesday, June 24, 2009

Blogg úr rassinum á mér.

Ég fór í sund í dag (eins og aðra daga) og fannst allt í einu að ég hefði eytt of miklum (dýrmætum vinnutíma) í það. Ég synti þúsund metrana og labbaði heim og svo núna finnst mér eins og ég hafi snuðað sjálfa mig. Líklega er þetta helber vitleysa, því heilsan er ekkert minna mikilvæg en vinna. En ég ákvað að ég skyldi bara fara í sund í fyrramálið klukkan 6:30. Fyrst ég gat vaknað svo snemma í VETUR þegar ég REYKTI til að eiga kósístund með sjálfri mér og Möllu vinkonu, get ég alveg rölt mér í laugina! Markmiðið er að synda núna 1500 metra í smá tíma og svo 2000.

En ég fór á heimasíðu sundlaugarinnar og sá hvar hægt er að skilja eftir athugasemdir. Einn kvartaði yfir því að ekki væru nægar upplýsingar á vefnum. T.d. lengd laugar, fjölda brauta og svona eitthvað. Vissulega vantaði þessar upplýsingar. Ég eiginlega skil ekki hvers vegna ég hef skoðun á þessu, en sko. Í GAMLA DAGA HRINGDI MAÐUR BARA! - Úr heimasíma.

Mikið er ég þreytt á internetinu.

Wednesday, June 17, 2009

Jésús!


Ég held ég hafi sprengt geðveikisskalann minn í dag.

Í gær var ég ósköp róleg og hálf þreytt eftir 2 næturvaktir, vaknaði eftir 8 klst svefn og las megnið af deginum og langaði í pizzu frá Napolí. Aðalsöguhetja bókarinnar er á Ítalíu að læra ítölsku og borða ítalskan mat í tíma og ótíma. Ég, hins vegar, hef verið að huga að mataræði mínu og er uppistaðan grænmeti...Þannig að það var gaman að finna bragðið af öllum matnum sem hún var að lýsa. Svo er hún líka að koma útúr skilnaði og einhverju ástarsambandi sem rífur eitthvað í taugar hennar.

Í gær var ég líka búin að ákveða að vera ekkert að stressa mig á þjóðhátíðardeginum, sama gilti um kærasta minn og mér fannst það fínt. Ekkert stress... Ætla ekki í bæinn. Bara vera róleg. Ætlaði bara heim til mín að hlaða símann, þvo þvott og mála.

Síðustu 10+ ár hef ég farið (ef ég er á landinu) í bæinn, hitt hinn og þennann, farið heim og dáið úr þreytu ásamt pirringi yfir því hvað ég er að þvælast þetta mér finnist þetta hvort sem er alltaf jafn þreytandi. Ég á ekki börn til að skemmta og úða sælgæti í, og mér finnst miklu skemmtilegra að hitta fólk í rólegri aðstæðum.

Í DAG er annað upp á teningnum. Ég er eirðarlaus sem aldrei fyrr. Finnst ég VERÐA að hitta hinn og þennann og er að pirra mig á því að ástmaður minn ætli bara að slaka á í dag! Skilur hann ekki að honum ber að skemmta mér!? ÞAÐ ER SAUTJÁNDI JÚNÍ! (?).
Ég tékkaði á honum aftur áðan, eða keyrði til hans og hann var enn bara að njóta lestursins. Ég hringsnérist aftur út í leit að einhverju. Jæja. Ég veit að það er sagt að geðveikir viti ekki að þeir séu geðveikir...en hvað ef maður ER geðveikur og veit það? Er maður þá minna geðveikur eða meira geðveikur en hinir geðveiku? Allavega. Svona er það líklega að vera geðveikur.

Ég er allavega hætt að elta skottið á sjálfri mér og horfi á strigann minn tilbúin til að komast í hliðstæða heiminn minn.

Góðar stundir.

Wednesday, June 10, 2009

Hnífurinn


Er búin að vera að taka til (umturna) íbúðinni minni og sýnist ég þurfa að vera frumlegri í uppröðun og breyta týpískri pælingu með eldhús og stofu..En ég fékk sófa um daginn, 3ja og 2ja sæta vínrauða Lynch-sófa með kögri. Þar með var plássið mitt farið. En ég nota stofuna sem vinnustofu, eða gerði fyrir tilkomu plush sófanna. Nú hef ég hent öllu til og frá og búið til vinnuaðstöðu á ný. Nú get ég haldið áfram á meiri krafti að mála og kannski notað eitthvað af þessum skissum sem hafa komið í staðinn.

Enníhú...Ég held að "eldhúsið" verði áhugavert.

ÞAÐ sem ég vildi þó sagt hafa, er að á meðan á þessu brölti stendur hef ég haft The Knife - Deep Cuts á fóninum. Djös stemning.

Hvorki fugl né fiskur festist á milli skips og bryggju.


Ég fór á Austurvöll til að njósna áður en ég skellti mér á kvöldvakt.
Ætli maður sé bara áhorfandi? Hvað á maður að gera? Það er búið að gera hitt og þetta og ég eiginlega nenni ekki að halda áfram að valda sjálfri mér hugarangri með þessu. Ég hef ekkert að segja um þetta. Ég rómantisera þetta stundum með því að hugsa til framtíðarinnar þegar ég er orðin eldgömul og get státað mig af því að hafa nú lifað tímana tvenna þegar 2009 fór í viftuna...Ekkert meira en það.

rosa mótmæli í gær...ha...

En ég ákvað í gær að í raun væri ekkert annað að gera en að vera jákvæð. Ég hef neikvætt mig í hel undanfarið og er að sligast undan því. Nóg er um bull í kringum mann til að maður fari ekki að vera bull sjálfur.

En ég nefnilega fann óvart til þakklætis í gær þegar ég rölti mér í vinnuna. Ég nefnilega er með vinnu og er bara ekkert of góð fyrir hana. Það er einhver landlægur hroki gagnvart því að vera ekki að "meikaða" og er ég 100% sek um hann sjálf. Og það merkilega er að þessi hroki hefur ekkert með raunveruleikann að gera. Hann er bara í hausnum á manni. Og er frekar súrrealískur. Garalovitt mar.

En hér fyrir ofan er skissa af Alþingishúsinu sem ég teiknaði í góðu yfirlæti á Austurvellinum...Hún er á hlið?

Sunday, June 7, 2009

Uppfært líf.

Ég blogga til að lifa. Einmitt.

Mikið er furðulegt að taka ekki eftir stafsetningavillum (stafsetningaRvillum?)...nenni ekki að fletta þessu upp...(frh:) fyrr en nærri viku eftir að maður hendir einhverju röfli á alnetið.

En ég er ss. orðin reyklaus. Dagur 11 (fyrir utan eina sígarettu)...Mér datt í hug að reykja sígarettu vegna þess að mér leið ekki nógu vel, en fann fljótt að hún var ekkert nema bragðvond og íþyngjandi. Nema hvað...Í kjölfarið á reykleysinu hef ég tekið upp á því að hreyfa mig meira því ég held að það sé hægt að springa úr sjálfum sér ef maður gerir ekkert fyrir líkamagreyið. Þannig að í dag tókst mér að skokka 4 km þó að bakið sé í einhverri steik. En líkamsræktin mín er sund. 1000 metrar nokkrum sinnum í viku. Það er þægilegt að hafa orku og geta andað almennilega. Og fyrir utan allt þá er örugglega rosa fjör að vera hot. Ég man þá gömlu daga þegar Solla vóg ekki þúsund kíló.

En þar sem ég hef einsett mér að líta á björtu hliðarnar og slaka á röflinu mun þetta blogg verða með þeim dagbókarlegri... En ekkert leiðinlegt sko, markaðshópurinn mun bara breytast. Kannski lesa fleiri eróbikkhoppandi reykleysingar þetta. Kannski engin.

Hey, hvað með Ice-Save?

Ísland. Best í heimi!

Wednesday, June 3, 2009

http://lifa.is

Eitthvað er að vekjast um í heilanum á mér í sambandi við lífsgæði og kröfurnar sem við (ég) geri á lífið. Það er ekki hjá því komist hjá mér að leiða hugan að einhverju leiti að fjármálum. En þó er ég viss um að fjármál og lífsgæði haldist ekki endilega í hendur þó að það sé hluti af dæminu. Dæmið verandi lífið eins og það leggur sig. Kannski svona 10% af því.

Lífið:
Fjölskyldan 30%
Vinnan 20% (Vinnan er í þessu tilfelli dayjob, ekki ævistarf eða ástríða)
Maki 0-1000% (fer eftir þráhyggjuskalanum í hvert skipti)
Peningar 10% ?

Nevermind. Ég kann ekkert að setja lífið upp á rökvissan hátt með hagfræðilegum prósentum. Mátti reyna.

Ég er að fara í viðtal hjá Sparnaði (spara.is), en vinkona mín benti þeim á að ég gæti verið ágætis "viðskiptavinur" þar sem ég er ekkert að fela það að ég lifi á fátækrarmörkum. Það sem er súrara er sú tilhugsun að ég hafi það bara skrambi gott miðað við marga á Íslandi í dag. Ég stend í skilum, fórna þ.a.l. nærri öllu sem heitir afþreyingu (sem kostar peninga), ég leigi og hef ekki misst húsnæðið mitt, er ekki að borga þúsundmilljónir fyrir bílskrjóð á mánuði...osfrv...þetta er það sem ég fæ að heyra þegar ég kveinka mér yfir blankheitum. Að ég sé í RAUN ekki í svo slæmri stöðu...

Málið er, að ég fæ bara ekkert kikk útúr því að frétta að vinir og kunningjar séu að missa allt eða að fara á hausinn, margt af þessu fólki hefur borgað háar upphæðir í downpayment fyrir húsnæðin sín osfrv. Mér finnst engan vegin sanngjarnt að ég notfæri mér óheppni annara til að líða betur með sjálfa mig.

Mér finnst mjög leiðinlegt að sjá fréttir af ókunnugu fólki sem hefur misst allt og meira til og hvað þá eins og í dag, þegar eldklár og dugleg vinkona mín heldur að hún komist ekki í vinnuna og með barnið sitt til dagmömmu þennan mánuðinn nema með því að eyða aleigunni í bensín. Reyndar voru þær tvær með svipaðar áhyggjur í dag. Ég held að afneitun á ástandinu sé ekkert að hjálpa neinum. Það sem mér finnst skrítið er að fólkið sem er í þessari stöðu skammast sín fyrir það. Furðulegt, ekki satt? Þetta eru bara tvær manneskjur í dag. En í þessari viku hafa 3 rétt nefnt svona áhyggjur við mig. Engin er beint að kvarta og sú þriðja tók það fram að hún væri ekki að "væla".

Harka. Hvar værum við án hennar?

Þó að verið sé að taka þig fjárhagslega í r**s er mjög mikilvægt að kvarta ekki og halda haus.
Þú gæti nefnilega eyðilagt stemninguna.

Saturday, May 30, 2009

Leigumarkaðsþoka

Undanfarið hafa nokkrir verið svo vænir að segja mér að leiguverð á íbúðum sé lægra. Ég hef þau grunuð um að vera ekki á leigumarkaðnum, því að leiguverð er EKKI lægra (ég tel 5 þús kr. lækkun á íbúðum ekki með). Ég hef verið að leigja hér í Reykjavíti síðan í haust og er mjög heppin með verð og leigusala. Stærð íbúðarinnar er svo annað mál. Ekki mjög stórt. Eiginlega bara mjög lítið. Ótrúlega bóhem.

En ég er búin að vera að gæla við að stækka við mig, nema hvað að í boði eru íbúðir frá stærðunum 40-70 m2, og virðast verðin oft ekkert fylgja fermetrastærð, staðsetningu eða hvort íbúðin er í blokk í glæpahverfi osfr... Allavega þá er ég EKKI að fara að borga hundraðþúsund krónur í einhverja blokkaríbúð ÞÓ að myndirnar séu voða fínar. Ég hef komist að því að nærri allir eiga beige-litaða tungusófa-way to go!.

Frekar bý ég í þessu litla hreiðri mínu lengur og hef aðeins meira til að lifa á en að svelta fyrir einhverja steypu útí bæ.

Dæmi u leiguverð: 43 fermetrar á 89 þúsund?? 30 fermetrar á 70 þúsund....
Svo þegar þetta er komið uppí hina stóru 50-60 fermetra þá er þetta bara spurning um hundrað til hundrað og 50 þúsund íslenskar krónur. Je ræt. As iff.

Ég leigi ekkert fyrir 100.000 iskr.- (það er bara pjúra vitleysa miðað við allt annað..eða í stíl við allt annað) ÞÓ að markaðurinn sé fáránlegur og svonaséþettanúbara...Pfh. Hlusta ekki á svona vitleysu.

Ykkur til enn meiri skemmtunar langaði mig að segja frá því að núna rétt í þessu hringdi ég vegna íbúðar sem hljómaði voða vel. Nema hvað að leigusalinn byrjaði á því að segja mér (á innsoginu) að þessi íbúð væri ómöguleg fyrir einn eða eina...EH? Svo sagði hún nokkrum sinnum "ég vil bara segja þér það strax til að vera heiðarleg"...Síðan talaði hún í óþolandi vælutón lengi um ekkert. Þegar ég sagði að það hljómaði eins og hún vildi ekki leigja hana út byrjaði hún að gagga. Ég var farin að sjá hana fyrir mér í heimsókn annan hvern dag í fínu íbúðinni "minni", með eitthvert tilgangslaust erindi. Hún spurði hvort ég væri með meðmæli sem ég játti, enda með endæmum fínn leigjandi. Sem segir auðvitað allt sem hægt er að segja um minn karakter. Nema hvað að...ég varð að segjast þurfa að hlaupa og bæbæjj.

Næst bið ég leigusalann um meðmæli.

Thursday, May 28, 2009

Reykur

Það er dagur 3 í reykleysi hjá mér og ég er að vona að það versta sé yfirstaðið. Í gær var nefnilega vaktafrí og ég lá í fráhvörfum allan daginn. Svitinn var líklega gulur til heiðurs sígarettunnar og svo svaf ég heil ósköp. Mig langaði heldur ekkert til að gera NEITT af því sem ég er vön að gera á frídögunum mínum. Málaði ekki, tók ekki til og talaði ekki neitt í símann fyrr en um hálf níu um kvöldið. Lá bara og horfði á forheimskandi þætti til að þurfa ekki að hafa skoðun á neinu. Öðru hvoru langaði mig að öskra eða deyja. (kannski smá ýkt þetta með dauðann, en ekki langt frá því). Svo felldi ég nokkrum sinnum krókodílatár yfir því volæði sem fylgir þeirri heilbrigðu ákvörðun að HÆTTA að reykja.

En þetta var dagurinn í gær. Hann er búin. Sem betur fer.


"It has been my experience that folks who have no vices have very few virtues."
Abraham Lincoln
16th president of US (1809 - 1865)

Monday, May 25, 2009

Træ...ræ...ræ...

Mikið hlakka ég til að halda námskeiðið sem er að reyna að brjótast útúr höfðinu á mér. Ég þoli ekki þegar ég fæ skemmtilegar og auðframkvæmanlegar hugmyndir sem ég mikla svo fyrir mér að ekkert gerist...Nema að ég yfirleitt enda á því að framkvæma þær, en það er önnur saga.

Í gær horfði ég á 3ju mynd helgarinnar -An American Story- sem fjallar um kexköku í Wisconsin sem á aðeins eitt markmið, en það er að búa til kvikmynd. Og lifa á því að búa til kvikmyndir. HANN röflaði heil ósköp um drauminn sinn og flestu fólki fannst hann í mesta lagi hæfur til að vinna í verksmiðju eða snjómokstri eða einhverju álíka spennandi....Nema hvað að....Hann kláraði myndina sem endaði á Slamdance hátíðinni (árið 1999). Fram að þessu kom hann út eins og aaalgjör.
Boðskapurinn er auðvitað að gera bara mistök og gera það sem maður vill...eða eitthvað. Klúðra þessu bara. Sérstaklega þegar þú ert umkringdur fólki sem hefur svona semítrú á þér. Eða enga.

Eins og konan sagði: Þú ert ekki búin að vera eyða tíma og peningum í þessa menntun til að vinna hér...

Sunday, May 24, 2009

Fleiri kvikmyndir...


Hér er önnur frábær mynd. Hryllings.
Þar er Kóreyska myndin Saga af tveim systrum, eða A tale of two sisters.




Rauða blaðran





Mæli með þessari mynd.















Sérstaklega fyrir þá sem eru marineraðir í hollywood þynnildiskvikmyndum. Jésús. Hún var alveg yndisleg.

Svo mæli ég líka með því að drekka seið sem er búin til með engifer, lime, sítrónu og cayenne pipar. Kreist saman í soðið vatn og appelsínusafa. Þeas. Ef það vantar eitthvað uppá innri hressileikann. En ég mallaði hann eftir uppskrift móður minnar sem er heilsuhneta að upplagi, en ég gleymdi hvítlauknum. Sem er ágætt þar sem ég er að fara út úr húsi og mun líklega rekast á fólk. Jafnvel tala við það, óþarfi að drepa það úr andfýlu. Eða hvað? Ojæja, það fer nú bara eftir því hver á í hlut.

Myndin. muna myndina.

Thursday, May 14, 2009

which witch?


Síðustu nokkra daga hefur sálartetur mitt verið á einhverju flippi. Sumir vilja meina að ég "sé svo viðkvæm", sumir verandi hún móðir mín..En hún hefur margoft bent mér á að fara varlega, eða rólega....eða hægar. Eða eitthvað. Og hef ég oftast farið í vörn innra með mér og haldið að henni finnist ég vera andlegt grey...sem er kannski ívið dramatískt viðmót.

En ef ég tek saman það sem hefur verið að gerast í kringum mig, er ég ekkert hissa á því að það sitji eftir eitthvað innan í mér sem vill hreinlega fá hlutina á hreint. Í dramatískri túlkun þýðir þetta að ég er með öskrandi afskræmingu af ofsaglöðu nornabarni sem hendist örvæntingafullt til og frá í leit að einhverju haldbæru. Einhverju sem réttir af þá bilun (geðveiki) sem það er að upplifa og valda.

1.
Ég er vonsvikin. Ég hef verið að fylgjast með umræðum fólks um hitt og þetta sem er í gangi í þjóðfélaginu og mér líður eins og ég búi á eyju fullri af kexkökum - Eða crackers. Hvítu rusli. Lykilorð: Líður. Kannski bylur hæst í tómri tunnu, kannski hefur það fólk hæst sem veit ekkert í sinn haus. Sem betur fer finnur maður frávikin innan um fávísina.

2.
Ég fékk afganginn af eigum mínum sendar heim frá Bandaríkjunum um daginn og ég hef ekki haft eirð í mér að ganga almennilega frá. Ekki að mér líði vel í óreiðunni, heldur er bæði mjög lítið pláss til að koma því fyrir, og svo hefur mig ekkert langað til að fara í gegnum draslið. Ég er nefnilega ein af þeim sem fer á memory lane-trip þegar ég þarf að pakka, eða afpakka. Ég nenni því ekkert alltaf og sérstaklega ekki undanfarið þar sem ég er búin að vera nokkuð ánægð með það sem ég hef hér. Korny- I know.

3.
Ég hef ákveðið að 3. ástæða andsetinnar hegðunnar komi ykkur ekki við að svo stöddu.
Hægt er að nálgast mig í síma 615 1475 fyrir nánari upplýsingar.

Góðar stundir.

Tuesday, May 12, 2009

Sýning

Fyrir þá sem ekki vita þá er ég búin að vera að mála myndir fyrir sýningu sem er c.a. í sept.-okt. Kannski fyrr. Vonandi.

Ég er loksins búin að panta blessaða venue-ið og hlakka til að sjá hvað verður.

Í fullkomnum heimi myndi ég ekki gera neitt annað en nákvæmlega þetta. Strigarnir eru farnir að stækka og hugmyndirnar með. Helst vildi ég búa í íbúð (rými) sem leyfði mér að sulla eins mikið útum allt og ég þarf. Það er frekar fyndið að þykjast tapa sér og þurfa samt að vanda sig til þess að það komi ekki blettir á plastparkettið.

Ég hef ekki málað í svona viku (allt of lengi!). En hef teiknað og skissað.

Sumir tala, skrifa, leika, lesa, syngja og dansa. Ég skal gera þetta allt, en bara ef ég fæ að mála.

Í cynical heimi ber að varast að skrifa svona blogg.

Það eru aaaaalveg að koma myndir á alnetið. Ég finn það á mér.

Wednesday, May 6, 2009

Frídagur

Þar sem ég vinn vaktavinnu fæ ég frídaga einu sinni í viku sem eru ekki í samræmi við neitt. Stundum á þriðjudegi, oft á miðvikudegi en oftast á fimmtudegi. Í dag var miðvikudagsfrídagur. En í staðin fyrir þennan dag vinn ég aðra hverja helgi og einhver random kvöld. Ágætt, ágætt.

Ég ætlaði að vinna í hinni vinnunni í dag en ég NENNTI því ekki. Ónei. Því í dag var sól. Ekki rigning, heldur sól. Því eyddi ég honum í að drekka te og teikna úti í garði. En ég er komin í skopmyndastuð, því ég er svo oft vitni að, eða skotspónn í fáránlegum aðstæðum sem ég fer ekki nánar útí hér, því ég hef komist að því að það er hægt að móðga fólk með hóli og fólk sem maður þekkir ekki getur tekið mann svo inná sig og ég er farin að halda, að það sé til fólk sem er ekki einu sinni til sem myndi grípa tækifærið og taka því sem ég segi og snúa uppá það til þess að fá kikkinn útúr því einu að fara móðgað frá samræðum við mig.

Ég held að neikvæðnin í fjölmiðlum, fjölmiðlaflutningi, samfélagsumræðunni og landlæga kaldhæðnin í "okkur íslendingum" sé búin að eyðileggja hæfni okkar í venjulegum, hversdagslegum samræðum.

En sko. Það er mín ágiskun. Skoðun jafnvel. Þetta kemur allt í ljós.

Djöfulsins röfl er þetta alltaf hreint.

Saturday, May 2, 2009

Tilviljun?

Í dag fór ég snemma úr vinnunni til að hlýða á hvað David Lynch segir um Trancendental Meditation.

Það var gaman að sjá hve margir komu í Háskólabíó að sjá hann. Þó spyr ég mig alveg hvort fólk kom til að sjá stjörnuna eða hvort svona margir hafi áhuga á hugleiðslu. Ég fór til að sjá manninn (auðvitað! Þetta er Lynch!), en ég var mjög forvitin að heyra um hugleiðsluna og hvað hún hefur gert fyrir hann. Háskólabíó var fínt.

Síðan fór ég í Saltfélagið að heyra meira, en því miður fannst mér það ekki eins gaman. Gott að heyra í honum, Roger Tom og Sigurjóni, en mér fannst skrítið hvað nokkrir spyrlar virtust hreinlega misskilja tilgangin með þessu málþingi. Efi og tortryggni er eitthvað sem hefur fylgt mér síðan ég man eftir mér, en ef ég skildi þetta rétt þá var hann að koma til að deila með okkur hugleiðsluaðferð sem hefur dýpkað líf hans og fært honum innri hamingju osfrv. Ekkert flóknara en það. Svo virtist sem nokkrum fyndist hann vera að reyna að lokka okkur (sauðina) í sértrúarflokk. Heyrði þessu líkt við Herbalife kynningu og fleira fáránlegt.

Hérna eyða margir krónunum sínum í kort í World Class ofl. til að flexa vöðvana sína. Það er mjög gott fyrir líkamlega heilsu og hjálpar geðinu að haldast fyrir ofan frostmark. Engin fárast yfir því að þurfa að borga fyrir það, eða einkaþjálfara ef út í það er farið...Þessvegna finnst mér svo skrítið að vera vitni að svona viðbrögðum.

Aldrei sagði hann að þessi aðferð væri best af öllum. Hann var að segja frá henni.

Einu sinni sagði jóganunna mér að geðveiki væri afleiðing af andlegum dauða..eða andlegum svefni...Að við værum svo þróuð tæknilega og vitrænt og að við gætum aðlagað okkur að öllum framförum á ógnarhraða, en að andlega líf okkar hér í vestrænum heimi þjáist í kjölfarið því við huguðum illa að því. Hennar orð.

Thursday, April 30, 2009

Upp úr kafinu.

Undanfarið hef ég verið eitthvað andlaus. Og til að bæta ofan á það- óánægð með andleysið.

Andleysi kemur samt ekkert bara af tilefnislausu. Í mínu tilfelli tengist það oftar en ekki -áhyggjum. Þrátt fyrir að ég hafi þokkalega reynslu af því að koma mér í þannig aðstæður sem segja mér að "nú sé öllu lokið", þá hefur mér tekist að leysa vandamálin þó að þau líti út fyrir að vera óyfirstíganleg.

Enn og aftur sýnist mér þetta allt vera yfirstíganlegt, en það er bara vegna þess að ég neita að gefast upp. Hvort sem það eru aðstæður sem ég þarf að forða mér úr þó að ég haldi að ég lyppist niður og deyji ef ég geri það -Þá hef ég fyrir einhverja mildi náð að treysta því að ef ég er vongóð og með einhverja týru um að allt blessist, náð að komast á betri stað í sjálfri mér (eða lífinu).

Bjartsýni fyrir mér er ekki að ganga um með heimskuglott á smettinu og vera bara hress, heldur er þetta spurning um að halda áfram. Bjartsýni er ekki stilling í huganum.

Stundum er nóg fyrir mig að muna að fara í samstæða skó áður en ég geng í vinnuna, sem ég man ekki alltaf hvers vegna ég er að hafa fyrir að mæta í. Því oft eftir skylduþrungin tímabil er ég minnt á það að með staðfestu og einhverskonar trú, þá sé tilveran hreint ekki slæm.

Enn og aftur sýp ég hveljur.

Tuesday, April 21, 2009

Jæja krakkar þá er ég farin að geta gengið í gallabuxunum mínum aftur. Þegar ég var að monta mig við vinkonu mína spurði hún mig hvað ég væri að gera til að grennast og ég gat einhvernvegin ekki sagt neitt annað en að ég passaði aðeins hvað ég léti ofan í mig og hreyfði mig aðeins meira. Ekkert brjálað. Bara eðlilega. Sund og ganga. Auðvitað fæ ég mér líka próteindrykki til að "borða" eitthvað annað en brauð og ógeð á daginn og svo fæ ég mér bara kvöldmat eins og annað fólk. Ég narta á milli mála áhyggjulaust, en ég held að þessi litla hreyfing sem ég hef bætt við mig geri gæfumuninn. Svo er ég líka ástfangin og er þar af leiðandi jákvæðari...eða eitthvað.

Ég get ekki lýst því hversu glöð ég var þegar ég hætti að þrjóskast við að vikta mig, og sá að eftir viku af léttu sundi hafði ég losað mig við heilt kíló. Nú auðvitað tel ég bara vikurnar og krefst þess að missa eitt kíló á viku (eða tveim).
Ég hef samtals misst svona 12-14 kg síðan ég kom heim. I was big. Believe me...

Fyrir þá sem ekki vita þá bjó ég í Ameríku og varð feitabolla. Hnuss.

Thursday, April 16, 2009

Tuesday, April 14, 2009

O jæja

Þetta er að þynnast allhrapalega hjá mér.

Eftir að ég fór að aðhafast meira, minnkar þörfin á því að rausa hér á blogspot. Ég veit líka hvað það getur verið grautleiðinlegt að lesa dagbókarfærslur á bloggum þannig að ég er meðvituð um það á meðan ég reyni að skrifa eitthvað.

Málið er nefnilega þetta; Ég veit ég hef stundum skrifað um hvað ég er að aðhafast, og vegna þess að ég er að reyna að lifa uppbyggilegu og "gefandi" lífi þá er ekkkkkkert gaman að lesa um það.

Sjálfri finnst mér skemmtilegast að lesa blogg sem hafa "innihald", eins og til dæmis vel skrifaðir pistlar um pólitík (þó ég gæti reyndar ælt þegar ég heyri minnst á hana í dag), eða bara helst raunasögur og kjaftagang.

En þar sem ég er í raun að reyna að halda einbeitingu í máleríinu mínu auk þess að vinna fyrir salti í grautinn, hreyfa mig (jújú...mikið rétt) -synda og gangiskokka og EIGA LÍF - þá bara hef ég ekkert hnyttið að segja hér.

Reyndar...Í vinnunni í dag varð ég ótrúlega sorgmædd yfir atvinnuþrengingunum (atvinnuleysi, kreppa...osfr.) að mér varð á að röfla eitthvað um það hvað ég gæti verið að vinna eitthvað annað sem ætti betur við mig eða hitti meira í mark eða eitthvað...námið mitt myndi nýtast betur í einhverju öðru við manneskju "ofar" mér. Í allan dag hef ég vonað að þessu hafi ekki verið tekið eins og ég sé óánægð. Það ekkert nema eðlilegt að fá leiða, eða verða sorry yfir því að geta ekki valið úr vinnum (sem ég bjóst við), eða að vera nýskriðin úr námi og finnast eins og það breyti engu nema skuldastöðunni að hafa lært eitthvað.

Heldur kom í mig kreppuhræðsla.

...Er þetta afleiðing hrunsins? Er það svona sem "þakklæti" brýst út? Í hræðslu og undirgefni?

Friday, April 10, 2009

Allt of snemmt

Klukkan er rétt korter yfir sjö og ég er búin að vera á fótum síðan 6:30 að morgni á föstudeginum langa.

Ég veit ekki stöðu annarra, en ég stunda 100% vaktavinnu ásamt því að þýða hina ýmsu þætti og myndir, sem fara beint á DVD eða í sjónvarpið. Þetta geri ég á frídögunum mínum. Svo mála ég líka málverk. Því hef ég sinnt frekar vel þangað til núna fyrir nokkrum dögum. Ég held að vinnan, sem göfgar manninn svo mikið, hafi tekist að murrka úr mér sköpunargleðina.

Eins gott að þetta sé tímabundið ástand.

Tuesday, April 7, 2009

Fullkomnun

Ég farin að stunda sund. Það gerði ég mikið af hér í gamla daga og þótti gott að synda og var ansi aþlettik í mér. Var í körfu, handbolta, fótbolta með félögunum og auðvitað í Jazz-Ballet og svo auðvitað einhverja æfingamaníu in ðe nineties.

Ég hef það(aþlettisismann) ennþá, í mér, en nú þarf ég að útfæra það betur líkamlega því ég er ekkert að synda þúsund metrana neitt strax. fyrir nokkrum dögum synti ég x mikið og í dag synti ég x sinnum 2.5. Sem veit á gott framhald.

Nú sit ég í fríi heima hjá mér að vinna í hinni vinnunni minni, með heimamalaða kaffið mitt og eiturlyf með filter. (!?)

Í fyrramálið hef ég mælt mér mót með góðri vinkonu minni til að fara í göngutúr og sund.

(Á eftir mun ég svo mála nokkur meistaraverk og verða ótrúlega gagnrýnin á samfélag mitt og fletta ofan af allri vitleysunni sem ég læt viðgangast sjálfviljug og reyni að finna útúr því hvers vegna í ósköpunum ég sé svona misskilin. Kemst svo að því að það sé vegna þess að ég sé heimspekilega þenkjandi listamaður sem þurfi að sætta sig við hlutskipti sitt í þessum heimi...eða ekki og gera bara allt vitlaust. Hú nós?)

Tuesday, March 31, 2009

X-?

Þar sem ég hef bara verið heima í dag "minding my own business" hefur það þotið aftur og aftur í gegnum hugann á mér spurning sem er gjörsamlega að fara með mig. En hún er: "Eru allir í fokking framboði?". Ég er líklega síðasta manneskjan til að setja sig upp á móti nýjum hugmyndum, en ég er líka það vel gefin að mér dettur ekki í hug að velja bara "einhvern annan" til að stjórna landinu, eða ekkistjórna landinu. Eða eitthvað.

Ex-púff

Ég væri líklega löngu komin í framboð ef ég gæti haldið mér dofinni og málefnalegri í umræðum sem snerta mig jafn mikið og þær gera. Þessvegna finnst mér ótrúlega skrítið að fylgjast með samskonar tilfinningahrúgum vera að ota sínum tota í stjórnmálum.

Oh, well.

Wednesday, March 25, 2009

Myspace Brúðkaup - loksins!


Núna, rétt áður en ég fer að vinna að mikilvægum og áhugaverðum verkefnum smellti ég á Firefox til að tékka á því hvað er að gerast á netinu. Upphafssíðan mín er Myspace (er í lánstölvu og leyfði svona smáatriðum bara að vera ósnertum, afsak, afsak), en í dag blasti þetta við mér.

Hvernig væri það? Taka þátt í Keppni um besta sambandið en vera samt eins og Joaquin Phoenix í framkomu? Þannig yrði maður líklega. Nema að maður kæmist í markaðssetningarfíling og myndi poppa upp alla framkomu og fas til þess að fá að giftast Myspace-style.

Djöfull hlýtur að vera gaman að vera mannfræðingur í dag. Ég myndi taka að mér stúdíu um raunveruleikaþætti og hvað það er sem trekkir fólk upp í að - fara í fyrsta lagi í inntökusíuna til að "fá" að vera með (hvað gera pörin sem fá ekki að vera með?). Og svo líka hvaða eðli er það sem fær fólk til að langa í sigur...framyfir hin hamingjusömu pörin í sjónvarpinu....eða raunveruleikanum...eða eitthvað. En eins og alltaf mun ég komast að þeirri niðurstöðu að þetta sé samfélagslegt og að manneskjan hafi í raun enga hugmynd um hvað hún er að gera hérna. Eltir bara næsta hóp og vonar að hann sé lykillinn að sannleikanum. Eða ekki. Eða eitthvað.

En ég ætla að fylgjast með þessu kapphlaupi um ókeypis brúðkaup...í boði Myspace.

Monday, March 23, 2009

Læra meira og meira, meir' í dag en í gær...


Síðustu daga hef ég mikið verið að hugsa um dauðann. Ég var búin að skrifa uppkast að dauðabloggi í dag eftir vinnu, en ákvað að eyða því vegna þess að mér fannst það of morbid umræðuefni. En ég er líklega undir áhrifum frá mínu daglega lífi þar sem ég umgengst misveikt fólk á efri árum í 40 klst á viku. Líf þeirra er farið að virðast styttra og styttra og ég fæ oft að heyra setningar sem byrja á "ég hefði átt að" -ferðast meira osfrv. eða -eins og ég túlka það-að huga að hjartans málum.

Ég get ekki að því gert að huga að mínu eigin lífi (kapphlaupi) og finna að mig langar að kasta öllu bulli til hliðar og sinna mínum hjartans málum og láta bull og vitleysu vera, hvort sem það er einhverskonar eyðileggjandi lífsstíll, eða blaður í fólki sem vill fá mann með í hina og þessa hópa svo maður brenni ekki í helvíti, eða bara elítista sem vilja sannfæra mann um að álit annara og tengslanet í bissness sé það sem auðveldi manni lífið. Að því gefnu að það sé hugur minn og engra annara sem metur innihald liðins dags áður en ég sofna...

Dauðinn fær mig til að hugsa um lífið og því finnst mér skrítið hversu mikið tabú það er að nefna hann. Vissulega hef ég oft séð eftir fólki sem kveður þennan heim, því ég elskaði það eða bara líkaði við. Ég gleðst þegar fólk sigrast á ósigrandi sjúkdómum og heldur áfram að lifa. Enda er það víst eðlilegra.

Þegar ég var unglingur skrifaði ég mörg ljóð (eins og margir sem féllu fyrir reykelsum og Pink Floyd hékk ég inní herbergi með blað og blýant og var djúp), en ég man eftir einu sem hét "Þú ert vinur minn". Að sjálfsögðu man ég ekki eftir ljóðinu og ég býst ekki við að finna það aftur en það fjallaði um dauðann og að hann væri vinur minn vegna þess að mér fannst svo gott að vita hvar ég hef hann. Hann kemur. Ég dey. Hann gerir mér ekkert og tekur bara á móti mér. Það ætti ekki að vera neitt hræðilegt við það, enda fannst mér það ekki. Ég átti reyndar stutt tímabil þar sem ég óskaði þess að fá að sleppa því að vakna. En...er það svo óalgengt?

Ég las í bæklingi á spítala að það væri merki um geðveiki að hugsa of mikið um tilgang lífssins og/eða dauðann.

Ég hef lesið margar bækur um það hvernig á að lifa. Ég má ekki elska of mikið. Ég má ekki vera of eftirlát, ég má ekki vera of snúin, ég má segja það sem mér finnst -ef það kemur ekki illa við neinn. En ég á að setja fólki stólinn fyrir dyrnar ef það er ekki að lifa eins og ég lifi. , ég á að vera sterk, ég á að elta drauma mína, ég á að vera praktísk. Öllum þarf að líka við mig, ég á að vera sjálfstæð. Ekki vera meðvirk, en ekki vera dónaleg. Ekki vera ofurkona því þær deyja fyrr, en ekki vera letingi því það er aumingjaskapur. FINNDU MILLIVEGIN Í LÍFINU. Ekki vera of tilhöfð, ekki vera drusla. Vertu ekki of sexí, vertu kvenleg. Ekki drekka, ekki reykja - það drepur þig.

Saturday, March 21, 2009

Mark Ryden


Ég er hér með opinberlega með Mark Ryden á heilanum. Ég sá fyrst mynd eftir hann í kringum 2002-3 og hef ekki fundið lifandi málara sem hefur jafn sterk áhrif á mig og hann. Hann er ótrúlega fær með pensilinn og svo elska ég symbolismann hjá honum og auðvitað hvað hann er fígúratívur. Ég hef auðvitað rekist á fleiri málara sem ég fíla, en þeir bara ná ekki að festa sess í huga mér eins og þessi magnaði listamaður. Ef ég næ einhverntíman að gefa fólki eitthvað í líkingu við það sem hann gefur mér mun ég deyja sátt.

Monday, March 16, 2009

Útlit.


Ég held að útlitsþráhyggja sé með lúmskustu fyrirbærunum sem "hrjáir" samtímafólk. Þar sem ég get ekki sagt neitt nema útfrá sjálfri mér og því sem ég sé og heyri þá langaði mig að skrifa smá pistil um þetta fyrirbæri sem virðist hafa tekið yfir vestræna heiminn. Fyrir utan stöður og völd, þá er eins og útlit sé í topp 3 sætum yfir þá hluti sem virðast vera mikilvægastir okkur. Ég tek fram að ég er ekki að tala um líkamlega né andlega heilsu (sem virðist haldast í hendur samt sem áður).



Snemma á 10. áratugnum byrjaði ég að rífa kjaft og þreyta vinkonur mínar með ræðum yfir því hversu heimskulegur Undrabrjóstahaldarinn var. Wonderbra var fyrirbæri sem ýtti túttunum upp undir höku til þess að ná athygli hjá strákum sem á fannst brjóst hvort sem er frábær. Ég ímyndaði mér vonbrigðin í lok eltingaleiks, þegar kvenmaðurinn hafði "krækt" sér í karldýrið, rifið af sér brjóstarhaldarann og raunverulegu brjóstin féllu niður að maga. Svipurinn á honum tjáði líklega undrun.. Wonderbra?

Þetta er sem sagt langt síðan. Ég man eftir því hversu mikill downer ég upplifði mig fyrir að finnast þetta brjóstaflipp bilað.

Gerfibrjóstin á öðrum hverjum kvenmannslíkama, anorexían, búlimian, æfingamanían og matarþráhyggjan. Hégóminn og yfirborðsmennskan. Allt þetta eru hlutir sem mér þykir eðlilegt að líta á sem skaðlega fyrir andlega og líkamlega heilsu. Mér finnst það eiginlega augljóst. En í dag, 16. mars 2009 er ég ein af þessum leiðinlegu sem finnst gerfibrjóst asnaleg. Ekki ljót. Bara tilgangslítil. Mjóuveikin er líka skrítin. Og þar tala ég af reynslu. Ég var alveg týpískur óhamingjusamur unglingur sem var ekki ánægð fyrr en ég var 49 - 51 kg. Ég er 170 á hæð, og ég þurfti að hafa mikið fyrir því að vera hormjóna. Það var ekki fyrr en sett var á mig hjartamælitæki sem ég hugsaði að "kannski" væri ekki í lagi með matarhætti mína. En sama hvað mér leið hræðilega var fólk í kringum mig svo glatt fyrir mína hönd. Því nú væri ég mjó og falleg.
Og það skrítna var að það voru kynsystur mínar sem ýttu undir þetta...ekki hinir...

Myndin er frönsk antík.

Sunday, March 15, 2009

Vá...

Það sem það fokkar í mér að fara á túr er ekkert fyndið. Ég í fyrsta lagi missi hæfileikann til að velja á milli hluta, hvort sem það er hvað ég vil borða eða hvort ég vil eitthvað dunda mér eða hvað. Ég endaði þá bara á því að liggja í sófanum með enga skoðun á neinu. Sem væri allt í lagi ef mér tækist þá bara að loka munninum á meðan. Því það sem gerist þvert ofan í þetta skoðana-og viljaleysi er að ég hef harðar skoðanir á öllu sem mér finnst leiðinlegt, fólki sem mér finnst fífl og svo ég tali nú ekki um fjármál. Ég ímynda mér það versta um fólk en um leið langar mig mest til að klóra úr mér augun og láta fjarlægja úr mér tunguna. Aumingja samferðafólk mitt.

En mér tókst samt að vakna uppúr rotinu/geðveikinni um kvöldmatarleytið og skellti mér í módelteikningasession galore þökk sé hughrifum frá þessum bloggara/teiknara.

Saturday, March 14, 2009

Listamaður


Loksins fór ég á sýninguna með Alfreð Flóka í Hafnarhúsinu. Það þarf ekki að taka það fram að ég naut hennar vel. Ég hlustaði á útvarpsviðtal við hann og fannst hann mjög fyndinn og ótrúlega narsissískur. Eða kannski bara Narsissískur. Óþarfi að ýkja þá hneigð neitt þar sem hún er ýkt að eðlisfari. En ég var svo sammála honum með margt og fannst gaman að því að honum fannst fólk fífl, nema sumir. En fékk líka kikk útúr því að sjá myndirnar í fullri stærð þarna sem ég eignaðist þegar ég var 11-12 ára úr sýningarbæklingi sem ég tók í sundur og límdi á herbergisvegginn minn. Dáðist að þeim vegna þess hvað hann var djarfur og hvernig það vakti upp í mér hugsanir og tilfinningar sem ég hafði ekki haft áður. Aldrei fannst mér hann pervertískur eða klámfengin og í kjölfarið sá ég ekkert athugavert við þetta. Svo fannst mér gaman að sjá svona fínar teikningar...Stundum leit mamma á vegginn minn og hnyklaði brýrnar. Því á honum voru líka psycadellic plakat úr Pink Floyd plötu, AHA, Europe og Madonnu og honum þarna Rick Astley -sem Ólöfu frænku minni fannst líkjast einhverjum úr Flokki Mannsins.

Monday, March 9, 2009

Monday monday..


Í dag er vaktarfrí. Ég elska vaktarfrí. Reyndar komst ég ekki í vinnuna í gær útaf bakinu mínu góða, sem langar að komast í vinkil aftur.

Þegar ég kom heim síðasta maí labbaði ég eins og gömul kona í nokkra mánuði. Það kom ósjaldan fyrir að ég ó-aði og æ-aði útaf verkjum. Ég þakka því frostinu og hálkunni fyrir það. En í N.Minnesota varð 40° frost á Celcius og Farenheit, þannig að ef gamla konan í mér var til staðar einhversstaðar með liði sem segja til um veðrið, þá vaknaði hún þar.

Mér var sagt að drekka mikið vatn og fara út að ganga.

Þar sem allt sem er ókeypis er í miklu uppáhaldi hjá mér þá hef ég verið í vatnsþambi og ætla mér út að rölta við fjöruna.

Og já. Hvað á maður að kjósa? Ég bara spyr.

Saturday, March 7, 2009

Svefn, svefn, svefn.

Eitt af því besta sem ég veit er að sofa. Ég elska að sofa þangað til að líkaminn á mér fer sjálfkrafa upp úr rúminu, úthvíldur og streitulaus, hellir uppá kaffi í auto-pilot og tjillar þar til að hugmyndir fara að koma í heilann.

Í kvöld sé ég ekki fram á þannig morgun. Reyndar er nótt. Klukkuna vantar eina mínútu í 3.

Alveg sama hvað ég er bjartsýn þá er það bara þannig að ef ég er á kvöldvakt 2 kvöld í röð þá er ég komin í vampíru mód. Það versta er að ég á að mæta á morgunvakt eftir 4 klst og 59 mínútur.

Vei mér að hafa fengið mér kaffi um ellefu leitið í kvöld. Vei kaffi. Vei maskaranum sem hefur klárast! Vei brauði. osfrv.

En ég veija ekki öllu. Nei það er ekki svo.

Næsta blogg verður rosa kúl, pólitískt, upplýst, málefnalegt og hrokafullt.

Ég lofa. Ég er að reyna. Ég lofa.

Saturday, February 28, 2009

Laugardagskvöld

Jess loksins helgi.

Ég er búin að drekka kaffi og tala í símann, breyta statusnum mínum á Facebook, hanga útá svölum í sólinni -svona af og til í 5 mín í senn til að frjósa ekki í hel, laga á mér næstum því úr sér gengna hárið á mér, leggja lokahönd á málverk, fara í sturtu, reykja nokkrar síðustu sígarettur, horfa útum gluggann, sópa gólfið, þýða brot úr mynd, skissa, tékka á mér í speglinum til að vera viss um að ég sé ennþá til, ganga frá þvotti og svo núna blogga.

Héðan í frá verður bloggið mitt upptalning á "afrekum" dagsins.

Á eftir hitti ég móður mína og ömmu og borða með þeim kjúkling að hætti mömmu. Ætlaði að vera búin að hitta ömmu fyrir löngu. Amma litla er krútt.

Bless kæra online dagbók.

Friday, February 27, 2009

Hann er ekkert skotin í þér

Jújú, ég fór á myndina "He's just not that into you". Hún var fín.Voða sæt. Jájá. Fannst bara gaman.

Burt séð frá því þá er ég samt sem áður voðalega upptekin af samskiptum kynjanna og hef verið í dágóðan tíma. Ég fer frá því að vera eins og bitur norn útí að líkjast ástsjúkum ungling sem trúir því að ástin sigri allt. Líklega er það bara eðlilegt miðað við aldur og fyrri störf að kalla ekki allt ömmu sína

Við Anna húmoristi fórum í gegnum spjall þar sem við prófuðum að kalla allt ömmu okkar og við enduðum bara í ruglinu. Pæli alltaf í því þegar ég heyri þetta notað.

Hún kallar ekki allt ömmu sína sko.

Ef lífið væri bara eins og bandarísk bíómynd, þá væru allir sáttir. Líka ég.

Thursday, February 26, 2009

Vild'é væri bara hlýðin

Ég sagði við frænku mína um daginn að ég væri strax komin með leið á því að mæta í vinnuna. Ekki vegna vinnunnar sjálfrar, heldur útaf vinnustaðapólitíkinni og eitthvað sem skiptir sosum ekki máli 90% af tímanum. Hún sagði; já svona er lífið. Maður þarf að gera leiðinlega hluti....eins og að mæta í vinnu.
Vinnunnar nýt ég. Það er á hreinu. En ég vinn á stað þar sem margir vinna og maður vinnur ekki alltaf með sama fólkinu, flestir eru bara skemmtilegir og almennilegir og frekar afslappaðir en faglegir. Svo er alltaf þessi 2% sem eru svo leiðinleg og dónaleg að manni langar að æla. En í staðin heldur maður andliti og smellir hælunum 3var og óskar þess að það fólkið hverfi. En viti menn í staðin er maður komin á gula steypu veginn...(The Yellow Brick Road)

Framkvæmdargleði er rík í mér. Ég er búin að fatta að leti er ekki hindrun mín í að vilja gera eitthvað, heldur leiðindi. Ég nenni engan vegin leiðindum. Leiðindi gera það að verkum að ég verð sorgmædd og svo bara þreytt. Þreytt á því að reyna að vera ekki sorgmædd og þreytt á því að vera innan um leiðindi.

Yfirleitt er allt of mikið að gera hjá mér, en mér tekst samt að komast yfir það. Ég er heppin með aðstæður núna miðað við aldur og fyrri störf og miðað við efnahagshrunið sem hefði getað tekið mig í r*ss ef ég hefði ekki selt íbúð og flutt af landi fyrst. Ég kvarta ekki undan lítilli íbúð eða bílleysis eða að ég lifi undir fátækrarmörkum(ég lýg því, ég kvarta stundum yfir peningaleysi), því ég veit alveg að ég sigli uppúr þessu. Þó mér þykir þetta ekki endilega vera "ævintýri" eða "spennandi tímar", þá er bjartsýnin og hugmyndaflugið ekkert dáið.

Djöfull ætla ég að leggja mig eftir vinnu á morgun. Þessar andvökunætur eru að gera útaf við mig.

Þá er það ákveðið

Að þetta blogg mitt er einum of persónulegt og sundurslitið.

En ég má til með að skrifa um setningu sem ég heyrði.

"Hún er eitthvað svo skrítin. Hún býr bara ein og svona."

Hmm...

Samræðurnar sem þetta er tekið úr innihéldu auðvitað fleiri gullkorn um konu sem er held ég í mesta minnihluta sem mér dettur í hug (nema að hún er held ég ekki lesbía né fötluð). Hún kemur frá landi í Afríku og býr ein hérna á Íslandi.

Það sem ég veit um þesslenskar konur, þá eiga þær nákvæmlega engan tilverurétt. Nema bara til þess að þjóna karlmönnum. Pabbinn ræður öllu, og þegar hann er frá ræður bróðirinn ef hann er til staðar. Svo giftast þær og gerast eignir eiginmannanna. Svo skilst mér að þær séu settar á dularfulla stallinn svona í og með. Ú..kraftur konunnar er mikill og hættulegur, best að einangra hana þegar hún er í ham.

Mér dettur ekki í hug að hefja mig upp á svona fólki, þó mér finnist það eitthvað skrítið. Það er líklega ekkert grín að vera alvöru úglendingur hérna.

Svo hefur maður alltaf Davíð...

Wednesday, February 25, 2009

Óákveðni

Ætli ég hendi þessu ekki bara hingað.

Ég hef verið að hugsa fram og til baka hvað ég á að gera. Fara út í MFA í myndlist eins og hjartað öskrar á eða fara í myndlistakennarann eins og þessi auma praktíska hlið í mér hallast öðru hvoru að...

Það er ekki eins og ég hafi ekki í nógu að snúast í augnablikinu, og er alveg til í að vera í því vegna þess eins að ég nýt þess á svo margan hátt. En ég er alltaf meðvituð um framtíðina. Líklega vegna þess að ég er með það á hreinu hversu stutt lífið er, og líka vegna þess að ég hef komið sjálfri mér á óvart með því hversu fær ég er um að framkvæma þá hluti sem ég ætla mér. Ágætis áætlunargerð og vilji er það sem ég hef haft. Jafnvel þegar fólk í kringum mig gerir kannski lítið annað en að vara mig við hættunum og áhættunni við að taka skrefið. Persónulega finnst mér minna mál að pakka saman og hefja nýtt ævintýri, eða ný og augljósari kaflaskipti, heldur en að hjakka í sama farinu og reyna að smjúga mér inní einhvern lífsstíl sem ég á frekar erfitt með að sætta mig við. Stundum er ég umkringd fólki sem á það til að gagnrýna þá hvöt að vilja breyta lífi sínu. Kalla það eirðarleysi og óþolinmæði og svo einhverja fleiri lesti sem ég nenni ekki að telja upp. Það er því miður þannig að þegar ég finn að ég þrífst hvorki andlega né veraldlega þar sem ég er stödd, þá kemur lítið annað til greina en að hugsa sig til hreyfings. Hvort sem það þýðir að skipta bara um vinnu, eða fara í nám eða eitthvað annað.

Ignorance is bliss.

Mikið er örugglega þægilegt að hafa aldrei farið frá Íslandi. Því þá myndi maður ekki vita hversu rotið þetta virkilega er hérna...Að það væru til heilu þjóðfélögin sem kynnu einfalda kurteisi, að það séu bara white trash aumingjar sem ryðjast bara áfram og rífa kjaft...eins og það sem stuðar mig alltaf mest hérna er þetta blessaða gláp hjá fólki...inn um fokking bílana á ferð..á almenningsstöðum osfrv. Ég held alltaf að ég eigi að kannast við viðkomandi, eða þá að ég sé með horið lekandi og taki ekki eftir því (namm)....Jæja þetta er svona bara röfl með kannski smá sannleikskorni.

Ég veit ekki með þetta allt saman. Ég veit bara að ég er sorgmædd yfir volæðinu í þjóðfélaginu og því sem það er að hafa í för með sér. Ég hef enga trú á uppstokkuninni sem er að fara í gang, né heldur uppröðuninni eins og hún hefur verið, og er ég að tala um Alþingi. Hvað á manneskja að hugsa sem hefur hreinlega skömm að þjóðinni sinni? Það versta er að ég er hluti af þessu. Ég vona að ég sé bara uppfull af efa, og að ég skynji þetta allt saman á rangan hátt.
Í gær var vaktafrí og ég var svo heppin að fá litlu systur mína í heimsókn. Við erum samfeðra og kynntumst fyrir 10 árum. Hún er með skemmtilegri manneskjum sem ég þekki. Svo er hún í ofan á lag svo falleg að ég gæti setið og starað á hana tímunum saman. Hún er frábær.

Við sátum hér og spjölluðum en ákváðum svo, því að stemningin var svo eitthvað febrúarleg, að fara útí búð og kaupa nammi. En kókosbollubakki, suðusúkkulaði og pezpakki urðu fyrir valinu. Hún borðaði 2 bollur og ég 2. Svo kroppuðum við í suðusúkkulaðið og Pezið til skiptis þangað til ég gat ekki meir. Hún gat víst sogið þrúgursykur endalaust eftir allt nammiátið, en hún er líka 16 ára. Við horfðum á höktandi streymi af How I Met your Mother, og plönuðum landflutning eftir nokkur ár. Svo þurfti hún að fara í danstíma.

Ég fór að sinna verkefni með skemmtilegu fólki fram eftir kvöldi.

Fattaði svo seinnipart kvölds að kannski væri ekki sniðugt að borða nammi ofan á inntöku af St.Johns Wart.

Kannski ég geri það núna svona áður en ég fer á kvöldvakt? Verð rosa hress.

Tuesday, February 24, 2009

Háalvarlegt mál

Það vaknar alltaf upp í mér einhver skoðanagjarn tuðari hérna á blogspot.

Á daginn reyni ég að vera ekki að trana mínum skoðunum fram allsstaðar, því ég hef lært að það getur hreinlega komið sér illa að vera ekki fylgjandi sjálfstæðisflokknum, eða jafnvel að vera upplýst um þartilgert umræðuefni og bara geta engan vegin setið á sér. Því reyni ég að þegja og vera sæt til þess að vera tekin inn í þann hóp sem um er að ræða (einmitt). Því hérna, á landinu þar sem jafnréttið er svo langt komið og er há-háþróað er svo auðvelt að vera málefnalegur, því flestir taka því nefnilega ekkert persónulega.

Fjandinn, ég er aftur byrjuð.

Jæja, ég er farin út á meðal fólks. Best skrúfa uppá allrahanda attractivenessið.

Followers