Sunday, September 13, 2009

17 dagar

Ég var minnt á það að ég þyrfti ekki að hafa vissar áhyggjur eftir sautján daga. Því þá er það of seint.

Það er nóg að gera þrátt fyrir að ég sé óvinnufær. Ég hringi í Orkuhúsið á morgun og fæ þá líklega að vita hvað kom út úr myndatökunni. Hvort hnéð á mér sé bara svona þreytt og þurfi hvíld eða hvort ég þurfi að láta skera í það og laga. Ég er að vona að ég eigi bara að taka pillu við þessu því ég er síður en svo spennt fyrir því að láta skera. Ég vildi að ég hefði hlaupið á almennilegri skóm, og ég vildi að ég hefði ekki þurft að vinna svona mikið á fótum og ég VILDI að hnén á mér væru eins og þegar ég var tvítug. Læknirinn sagði nefnilega að svona meiðsli væru algeng hjá fólki sem er ekki lengur tvítugt. Svo brosti hann.

Fyrir utan það að mega ekki stunda líkamsræktina mína (sund, göngur og skokk), þá held ég að það versta við þetta sé að þurfa sífellt að vera að biðja hinn og þennan að skutla sér eitthvað. Það hefur orðið til þess að ég fer voða lítið út úr húsi því ég nenni ekki að hanga í rassgatinu á fólki og verða vinkonan sem hringir bara þegar hana vantar far.

No comments:

Post a Comment

Followers