Wednesday, February 25, 2009

Óákveðni

Ætli ég hendi þessu ekki bara hingað.

Ég hef verið að hugsa fram og til baka hvað ég á að gera. Fara út í MFA í myndlist eins og hjartað öskrar á eða fara í myndlistakennarann eins og þessi auma praktíska hlið í mér hallast öðru hvoru að...

Það er ekki eins og ég hafi ekki í nógu að snúast í augnablikinu, og er alveg til í að vera í því vegna þess eins að ég nýt þess á svo margan hátt. En ég er alltaf meðvituð um framtíðina. Líklega vegna þess að ég er með það á hreinu hversu stutt lífið er, og líka vegna þess að ég hef komið sjálfri mér á óvart með því hversu fær ég er um að framkvæma þá hluti sem ég ætla mér. Ágætis áætlunargerð og vilji er það sem ég hef haft. Jafnvel þegar fólk í kringum mig gerir kannski lítið annað en að vara mig við hættunum og áhættunni við að taka skrefið. Persónulega finnst mér minna mál að pakka saman og hefja nýtt ævintýri, eða ný og augljósari kaflaskipti, heldur en að hjakka í sama farinu og reyna að smjúga mér inní einhvern lífsstíl sem ég á frekar erfitt með að sætta mig við. Stundum er ég umkringd fólki sem á það til að gagnrýna þá hvöt að vilja breyta lífi sínu. Kalla það eirðarleysi og óþolinmæði og svo einhverja fleiri lesti sem ég nenni ekki að telja upp. Það er því miður þannig að þegar ég finn að ég þrífst hvorki andlega né veraldlega þar sem ég er stödd, þá kemur lítið annað til greina en að hugsa sig til hreyfings. Hvort sem það þýðir að skipta bara um vinnu, eða fara í nám eða eitthvað annað.

Ignorance is bliss.

Mikið er örugglega þægilegt að hafa aldrei farið frá Íslandi. Því þá myndi maður ekki vita hversu rotið þetta virkilega er hérna...Að það væru til heilu þjóðfélögin sem kynnu einfalda kurteisi, að það séu bara white trash aumingjar sem ryðjast bara áfram og rífa kjaft...eins og það sem stuðar mig alltaf mest hérna er þetta blessaða gláp hjá fólki...inn um fokking bílana á ferð..á almenningsstöðum osfrv. Ég held alltaf að ég eigi að kannast við viðkomandi, eða þá að ég sé með horið lekandi og taki ekki eftir því (namm)....Jæja þetta er svona bara röfl með kannski smá sannleikskorni.

Ég veit ekki með þetta allt saman. Ég veit bara að ég er sorgmædd yfir volæðinu í þjóðfélaginu og því sem það er að hafa í för með sér. Ég hef enga trú á uppstokkuninni sem er að fara í gang, né heldur uppröðuninni eins og hún hefur verið, og er ég að tala um Alþingi. Hvað á manneskja að hugsa sem hefur hreinlega skömm að þjóðinni sinni? Það versta er að ég er hluti af þessu. Ég vona að ég sé bara uppfull af efa, og að ég skynji þetta allt saman á rangan hátt.

No comments:

Post a Comment

Followers