Monday, March 23, 2009

Læra meira og meira, meir' í dag en í gær...


Síðustu daga hef ég mikið verið að hugsa um dauðann. Ég var búin að skrifa uppkast að dauðabloggi í dag eftir vinnu, en ákvað að eyða því vegna þess að mér fannst það of morbid umræðuefni. En ég er líklega undir áhrifum frá mínu daglega lífi þar sem ég umgengst misveikt fólk á efri árum í 40 klst á viku. Líf þeirra er farið að virðast styttra og styttra og ég fæ oft að heyra setningar sem byrja á "ég hefði átt að" -ferðast meira osfrv. eða -eins og ég túlka það-að huga að hjartans málum.

Ég get ekki að því gert að huga að mínu eigin lífi (kapphlaupi) og finna að mig langar að kasta öllu bulli til hliðar og sinna mínum hjartans málum og láta bull og vitleysu vera, hvort sem það er einhverskonar eyðileggjandi lífsstíll, eða blaður í fólki sem vill fá mann með í hina og þessa hópa svo maður brenni ekki í helvíti, eða bara elítista sem vilja sannfæra mann um að álit annara og tengslanet í bissness sé það sem auðveldi manni lífið. Að því gefnu að það sé hugur minn og engra annara sem metur innihald liðins dags áður en ég sofna...

Dauðinn fær mig til að hugsa um lífið og því finnst mér skrítið hversu mikið tabú það er að nefna hann. Vissulega hef ég oft séð eftir fólki sem kveður þennan heim, því ég elskaði það eða bara líkaði við. Ég gleðst þegar fólk sigrast á ósigrandi sjúkdómum og heldur áfram að lifa. Enda er það víst eðlilegra.

Þegar ég var unglingur skrifaði ég mörg ljóð (eins og margir sem féllu fyrir reykelsum og Pink Floyd hékk ég inní herbergi með blað og blýant og var djúp), en ég man eftir einu sem hét "Þú ert vinur minn". Að sjálfsögðu man ég ekki eftir ljóðinu og ég býst ekki við að finna það aftur en það fjallaði um dauðann og að hann væri vinur minn vegna þess að mér fannst svo gott að vita hvar ég hef hann. Hann kemur. Ég dey. Hann gerir mér ekkert og tekur bara á móti mér. Það ætti ekki að vera neitt hræðilegt við það, enda fannst mér það ekki. Ég átti reyndar stutt tímabil þar sem ég óskaði þess að fá að sleppa því að vakna. En...er það svo óalgengt?

Ég las í bæklingi á spítala að það væri merki um geðveiki að hugsa of mikið um tilgang lífssins og/eða dauðann.

Ég hef lesið margar bækur um það hvernig á að lifa. Ég má ekki elska of mikið. Ég má ekki vera of eftirlát, ég má ekki vera of snúin, ég má segja það sem mér finnst -ef það kemur ekki illa við neinn. En ég á að setja fólki stólinn fyrir dyrnar ef það er ekki að lifa eins og ég lifi. , ég á að vera sterk, ég á að elta drauma mína, ég á að vera praktísk. Öllum þarf að líka við mig, ég á að vera sjálfstæð. Ekki vera meðvirk, en ekki vera dónaleg. Ekki vera ofurkona því þær deyja fyrr, en ekki vera letingi því það er aumingjaskapur. FINNDU MILLIVEGIN Í LÍFINU. Ekki vera of tilhöfð, ekki vera drusla. Vertu ekki of sexí, vertu kvenleg. Ekki drekka, ekki reykja - það drepur þig.

No comments:

Post a Comment

Followers